Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þetta snýst um samtakamátt þjóðarinnar
Magnús og Sigurður ásamt Kristínu Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar. Myndin var tekin á frumsýningu heimildarmyndarinnar Maðurinn sem minnkaði Vistsporið sitt.
Sunnudagur 22. maí 2016 kl. 06:00

Þetta snýst um samtakamátt þjóðarinnar

- Bjóða upp á mælingar á vistspori

Bræðurnir Sigurður og Magnús Jóhannessynir úr Keflavík frumsýndu á dögunum heimildarmyndina Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt. Þeir fylgja myndinni nú eftir með því að setja á fót stofnunina Sjálfbært Ísland sem, eins og nafnið gefur til kynna, hefur það að markmiði að gera íslenskt samfélag sjálfbært. „Það er tvennt sem við hyggjumst gera til að nálgast þetta markmið, í fyrsta lagi að reyna að fá fólk til að langa að lifa sjálfbæru lífi og hins vegar að aðstoða það við að meta hvort líf þess sé innan eða utan sjálfbærnimarka með mælingum á Vistspori þess,“ segir Magnús.

Reiknivél fyrir vistspor
Vistspor er aðferð til að mæla umhverfisáhrifin sem verða af neyslu í daglegu lífi en flestir Vesturlandabúar lifa umfram það sem þeir ættu að gera. Sjálfbært Ísland stefnir að því að bjóða upp á reiknivél fyrir íslenskar aðstæður á vefsíðu sinni þar sem almenningur getur slegið inn upplýsingar um sitt daglega líf og þannig gróflega mælt Vistsporið sitt, sér að kostnaðarlausu. Einnig verður boðið upp á nákvæmari útreikning og ráðgjöf um það hvernig fólk geti minnkað Vistsporið sitt og er áætlað að slík ráðgjöf kosti um 15.000 krónur. Þeir hafa gert samstarfssamning við Global Footprint Network sem er leiðandi á heimsvísu á sviði Vistsporsmælinga en fyrirtækið hefur unnið að slíkum mælingum með 62 þjóðum. „Vinna þeirra hefur þó mestmegnis verið með stjórnvöldum þessara landa. Við Íslendingar höfum einstakt tækifæri, vegna smæðar okkar, til að ná betur til almennings og ná fram raunverulegri breytingu hjá þjóðinni, ekki bara hjá yfirvöldum. Íslendingar eru oft fljótir að taka upp nýjungar og vonandi verður það einnig þannig með þetta,“ segir Magnús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Halda áfram að fræða
Eins og áður sagði frumsýndu þeir fyrstu heimildarmynd sína um sjálfbærni á dögunum. Hún fjallaði um það hvernig Sigurður reyndi að minnka Vistsporið sitt yfir sex mánaða tímabil en það var töluverð áskorun í neyslusamfélaginu á Íslandi. Þeir ætla að halda áfram að framleiða fræðsluefni í anda heimildarmyndarinnar. Þeir segja mikilvægt að slíkt fræðsluefni sé byggt á vísindalegri þekkingu en sé líka sett fram á jákvæðan, uppbyggilegan og ekki síst skemmtilegan hátt. Enda sé skemmtanagildi forsenda þess að fólk geti meðtekið hinn erfiða boðskap um óhjákvæmilegar breytingar sem allir þurfa að tileinka sér í nánustu framtíð, eigi ekki að fara illa fyrir jörðinni og íbúum hennar.


Sigurður er umhverfisfræðingur og stundar nú doktorsnám í faginu við Háskóla Íslands. Magnús er rekstrarhagfræðingur og hefur á undanförnum árum unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast umhverfisvænni orku. Daglegt líf þeirra er breytt eftir gerð heimildarmyndarinnar og eru þeir nú mjög meðvitaðir um vistsporið sitt og hafa gert ýmsar breytingar á lifnaðarháttum sínum til samræmis við það. Vistspor einstaklinga skiptist í sex flokka; húsnæði, ferðir, mat, vörur, þjónustu og sorp. Í heimildarmyndinni kom fram að erfitt sé að lifa sjálfbæru lífi í samfélagi sem styður ekki við þann lífsmáta. „Þess vegna er mjög mikilvægt að allir íslendingar taki höndum saman og ákveði hvers konar samfélagi við viljum búa í. Í raun snýst þetta ekki um einstaka persónur heldur um samtakamátt þjóðarinnar,“ segir Magnús.

Nánar má fræðast um stofnunina á Facebook-síðunni Sjálfbært Ísland.