„Þetta eru mín stærstu mistök“
– segir Jónas Þórhallsson formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness og dæmt að knattspyrnudeild Grindavíkur skuli greiða Guðjóni Þórðarsyni 8,4 milljónir króna í skaðabætur fyrir vangoldin laun.
Jónas Þórhallsson formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur segir að niðurstaðan sé mikil vonbrigði fyrir Grindavíkinga. „Það voru vonbrigði en þetta eru okkar örlög. Þetta er bara búið og gert. Við þurfum að fara í aðgerðir og laga til í rekstrinum. Svona hugsjónastarf má ekki við svona skakkaföllum,“ segir formaðurinn
Þegar þú horfir núna um ölx, sérðu þá eftir því að hafa ráðið Guðjón á sínum tíma?
„Ég vildi ráða hann 1999 þá fór hann til Stoke. Árið 2005 sveik hann okkur og fór til Keflavíkur, þá fékk ég slæma mynd af honum. Þegar við svo loks réðum hann þá var ég á leiðinni að ráða Heimi Hallgrímsson. Þá var mér var tjáð að Guðjón vildi koma til Grindavíkur. Það var búið að benda mér á ýmsa galla hjá manninum en hann hafði árangur í farteskinu. Ég hafði samt trú á að hann gæti gert góða hluti hér og fór með það inn á borð til stjórnarinnar og þar var það samþykkt,“ segir Jónas.
„Ég ber fulla ábyrgð á þessu og ætla ekki að benda á einn eða neinn. Þetta eru mín stærstu mistök og ég reyni ekki að koma þeim á einn eða neinn. Ég ber ekki kala til eins né neins,“ segir fomaðurinn. Þegar Grindvíkingar féllu svo undir stjórn Guðjóns þá voru allar forsendur farnar. Við ætluðum að sækja fram en ekki falla fram af brúninni. Með Guðjón í brúnni þá héldum við að hann myndi fleyta okkur áfram eftir vandræði árin á undan. Það fór hins vegar á versta veg.“
Eru einhverjir fjársterkir aðilar sem standa við bakið á rekstri knattspyrnudeildar?
„Við erum með bakhjarla hér eins og víðast tíðkast í samfélaginu. Það er enginn að mata okkur með silfurskeið.“ Jónas segir að Knattspyrnudeildin hafi í gegnum árin fengist við ýmis fjárhagsálögur.
„Við höfum borið álíka byrgðar áður. Við höfum komið því öllu í verk úr okkar rekstri.“ Þar á Jónas við 14,7 milljóna skattaskuld árið 2007 sem félaginu var gert að greiða til Sýslumannsins í Keflavík vegna skattrannsóknar sem gerð var á öllum félögum á Íslandi tímabilið 1988 til 1993.
„Knattspyrnudeild UMFG, Knattspyrnu- og Körfuknattleiksdeild UMFN ásamt Knattspyrnudeild FH voru tekin út og notuð sem grýla á önnur félög. Knattspyrnudeild UMFG fékk árið 1995 álagningu uppá rúmar tvær milljónir kr. og lauk uppgreiðslu með refsidráttarvöxtum 2007 alls kr 14.700.000. Það var mjög ósanngjörn krafa. Það var ekki svigrúm til að aflétta því og við borguðum það á sínum tíma,“ segir Jónas.
Ný 1500 sæta stúka var vígð í Grindavík árið 2001. Byggð af hlutafélaginu GK 99 og Grindavíkurbæ. 50% hlutur hvor. Jónas segir að knattspyrnudeildin hafi borgað síðustu afborgun á áhofendastúkunni í lok árs 2011. Knattspyrnudeildin hafi borgað þrjár milljónir á ári frá árunum 2005-2011, samtals 21 milljón. Þetta var svokölluð uppgreiðsla á virðisaukaskatti sem hlutafélagið fékk tilbaka eftir byggingu stúkunnar. Eftir að GK99 var lagt niður var afsalið af stúkunni komið í hendur bæjarins, en fótboltinn hélt áfram að borga þrjár milljónir á ári allt til loka árs 2011 þá var mannvirkið orðið skuldlaust.
Jónas rifjar einnig upp þegar Reykjaneshöllin var tekin í gagnið á sínum tíma þá hafi Grindvíkingar æft og spilað þar eins og fleiri félög. Önnur sveitarfélög hafi aðstoðað sín knattspyrnufélög við að greiða leigu fyrir aðstöðuna í Reykjanesbæ, en það hafi Grindavíkurbær ekki gert þrátt fyrir að geta ekki boðið upp á sambærilega aðstöðu. Knattspyrnudeildin borgaði því 2,5 milljónir á ári fyrir afnot af Reykjaneshöllinni allt til ársins 2009, eða í tíu ár.
„Við höfum þurft að berjast fyrir okkar hér í knattspyrnunni í Grindavík, frá því að vera með enga aðstöðu yfir í það sem höfum hér í dag. Knattspyrnudeildin er rekin eins og fyrirtæki með öllum sínum skyldum og er gríðarstór vinnustaður. Við erum lögaðilar og veltan er um 130 milljónir á ári. 2012 var knattspyrnudeildin 15 stærsta fyrirtækið í Grindavík og útsvar sem fellur af launagreiðslum er um 8 milljónir á ári.“