Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 12. september 2001 kl. 11:26

„Þetta er eins og að vera staddur í bíómynd“

Axel Nikulásson býr ásamt eiginkonu sinni, Guðnýju Reynisdóttur og tveimur ungum börnum á 32. stræti á Manhattan eyju í New York, en hann er starfsmaður Utanríkisráðuneytisins og vinnur við fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu Þjóðunum. Þau búa í grennd við World Trade Center bygginguna og hafa orðið vitni af hörmulegum atburðum en eru heil á húfi.

Horfðum á turnana hrynja
„Við búum í grennd við WTC og sáum turnana vel út um eldhúsgluggann hjá okkur. Konan mín horfði á turnana hrynja, en ég var staddur í vinnunni þegar sprengingarnar áttu sér stað og fylgdist með þessu í sjónvarpinu“, segir Axel í samtali við VF en vinnustaður hans er á 41. stræti í NY sem er aðeins lengra frá WTC.
„Hér ríkir mjög sérkennilegt ástand - algjört öngþveiti. Þetta er eins og að vera staddur í bíómynd. Borgin lýtur út eins og Dresden eftir árás í síðari heimstyrjöldinni. Fólk hér túlkar þetta sem stríðsyfirlýsingu. Neðar á Manhattan, nálægt Village, er allt saman lamað. Þar er engin starfsemi og fólk hefur verið hvatt til að halda sig heima við í dag. Borgin er í rauninni lokuð. Allir vegir eru lokaðir. Yfir neðri hluta borgarinnar er um 10 sentimetra steypuryk yfir öllu og við finnum fnykinn heim til okkar. Þegar ég kom heim af næturvaktinni í morgun og leit út um eldhúsgluggann þá logaði ennþá í rústunum, 12 tímum síðar“, segir Axel þegar hann er beðinn um að lýsa ástandinu sem ríkti í NY í morgun.

Fólk hrifsaði börnin
Þegar sprengingarnar áttu sér stað var dóttir Axels í skólanum sem er staðsettur á 23. stræti, skammt frá turnunum tveimur. „Hún var ekki beint í hættu. Ég fór að ná í hana og mætti þá mönnum sem voru að koma að ná í börnin sín, gráum af ryki eftir sprenginguna. Mikill ótti greip um sig og fólk hrifsaði börnin sín og hugsaði um það eitt að flýja- komast í öruggt skjól.“
Spennan í borginni var mikil fyrstu klukkustundirnar og oft lá við slagsmálum. „Um miðjan daginn var mikið af fólki á ferli sem var að reyna að koma sér burt. Þetta var hálfgerður tryllingur.“

Allir Íslendingar heilir á húfi
Við gerum ráð fyrir að tugir þúsunda verði taldir af en ég held að það verði einhverjir dagar þar til þessi hroðalegi atburður fer að sökkva inn í vitund fólks. Þetta er ótrúlegt. Við leituðum uppi alla Íslendinga á svæðinu og það tókst. Þeir eru allir heilir á húfi.“
VF hafði samband við Axel morgun, en þá var klukkan sjö að morgni dags í New York og Axel nýkominn heim af næturvakt. Hann ætlaði að hvíla sig í nokkra tíma og mæta síðan aftur til vinnu eftir hádegi. „Ég veit ekki hvernig dagurinn verður í dag. Allar opinberar stofnanir og byggingar verða lokaðar í dag og allir skólar á Manhattan. Það kemur í ljós hvað verður. Við erum mjög slegin yfir þessum hörmungum en ég bið að heilsa öllum heima. Hér standa allir í báðar lappir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024