Þetta er bannað!
Umferð þungra bifreiða er bönnuð á Hafnargötu frá Vatnsnestorgi og niður að Duustorgi. Bannið var sett þegar Hafnargatan var endurbætt á sínum tíma, til að vernda bæði hellulögn og viðkvæmar lagnir undir götunni.
Þrátt fyrir þungatakmarkanir á Hafnargötunni þá eru þær ekki virtar og undanfarið hefur ítrekað mátt sjá stórar hópferðabifreiðar í götunni þar sem þær mega alls ekki vera. Á mynd hér að ofan má t.a.m. sjá tvær stórar rútur í stæði við Park Inn hótelið en einnig hafa rútur verið á stæðum neðar í götunni.
Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við Víkurfréttir að umferð þessara bifreiða sé bönnuð um Hafnargötuna frá Duustorgi og upp að Vatnsnestorgi en skilti á ljósastaurum við bæði torg vísi til þungatakmarkana upp á 7,5 tonna öxulþunga.
Því er beint til ferðaþjónustuaðila á svæðinu að koma skilaboðum um þetta til hópferðafyrirtækja að þau velji léttari bíla til að þjónustua svæðið þar sem þungatakmarkanir gilda.
Silti á ljósastaur við Vatnsnestorg sem vísar til þungatakmarkana á Hafnargötunni. VF-myndir: Hilmar Bragi
Silti á ljósastaur við Vatnsnestorg sem vísar til þungatakmarkana á Hafnargötunni. VF-myndir: Hilmar Bragi