Þetta endar með hörmungum - segir starfsfólk heilsugæslunnar
- Þetta er klárlega dæmi um ógnun á öryggi íbúa!
„Við erum ennþá þrjú, ár eftir ár að hlaupa hraðar og hraðar og reyna hvað við getum en þetta er ekki dæmi sem gengur upp. Nú þegar eru reyndir hjúkrunarfræðingar að hætta störfum sökum álags sem fólk hreinlega treystir sér ekki í lengur. Hvar endar þetta? Þetta endar með hörmungum,“ segja deildarstjórar Slysa- og bráðamótttöku HSS m.a. í grein í Víkurfréttum sem komu út í dag.
Veruleg gagnrýni er á starfsemi heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að því er kemur fram í úttekt Embætti landlæknis sem gerð var í apríl-maí sl. „Hluta af vanda heilsugæslu HSS má rekja til skorts á stefnumörkun og ósýnileika framkvæmdastjórnar. Ekki er skráð með sýnilegum hætti hver stefna heilsugæslunnar er, hvaða árangri heilsugæslan hyggst ná, né hvernig árangur er gerður sýnilegur sjúklingum og starfsfólki,“ segir í skýrslunni og bent er á að mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga sé ónóg á Heilsugæslu HSS og megi lítið út af bera til að öryggi sé hugsanlega ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar. Í grein frá tveimur deildarstjórum Slysa- og bráðamótttöku HSS í Víkurfréttum í dag kemur fram að stofnunin fái mun minna fjármagn en aðrar sambærilegar heilbrigðisstofnanir hér á landi.
Í úttekt landlæknis er bent á marga þætti í starfseminni sem megi betur fara. Fagfólk vanti á öllum sviðum, húsnæði uppfylli ekki nútímakröfur og aðgengi að læknisþjónustu á dagvinnutíma sé ábótavant. Starfsfólk geri þó sitt besta við erfiðar aðstæður. Læknir sem rætt var við í útttektinni á fullyrti að álagið á læknum HSS væri meira en á bráðamóttöku LSH þar sem hann starfaði áður en hann hóf störf við HSS. Það er ljóst að mjög mikið álag er á heilsugæslunni og bráðamóttökunni og voru komur á bráðamóttökuna yfir 16 þús. árið 2016 sem er svipaður fjöldi og kemur á bráðamóttökuna á Akureyri. Í skýrslunni kemur fram að mönnun hjúkrunarfræðinga á heilsugæslunni sé ófullnægjandi, þá vanti á bráðamóttökuna. Framkvæmdastjórn HSS hefur óskað eftir auknu fjármagni til að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga þannig að mönnun á slysa- og bráðamóttöku verði sólarhringsmönnun alla daga. Í úttekt Ríkisendurskoðunar kemur jafnframt fram að hlutfall læknisviðtala á heilsugæslustöðvum á dagvinnutíma á Suðurnesjum er það lægsta á landinu árið 2015. Ljóst er að kostnaður við yfirvinnu er hærri en við dagvinnu og því er fjárhagslegur ávinningur fyrir stofnunina að sem mest afköst náist í dagvinnu, auk þess sem hagsmunum notenda þjónustunnar er betur mætt.
Embætti landlæknis kemur með ábendingar eftir úttektina og segir m.a. að skýra þurfi hlutverk heilsugæslu HSS, stefnumörkun sé ekki skýr, ráða þurfi bót á mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga sem og sérfræðinga í geðteymi og meðferðarteymi barna. Í úttektinni komu fram kvartanir yfir fjarlægð framkvæmdastjórnar og kallað var eftir auknum stuðningi hennar.
„Þetta er klárlega dæmi um ógnun á öryggi íbúa að ekki sé starfandi hjúkrunarfræðingur á nóttunni og um helgar í svona annasömu sveitarfélagi sem er það fimmta stærsta á landinu. Á flestum vinnustöðum er samráð um framtíðina. Það er leitast við að leysa vandamál sem koma upp eins og að auka mönnun í takt við álag. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að starfsfólk hreinlega brenni út. Þetta er ekki gert á HSS!
Ár eftir ár eftir ár eykst álagið, það fjölgar íbúum, það fjölgar ferðamönnum, það fjölgar slysum, ásamt mikilli fjölgun hælisleitenda, aldraðra og veikra einstaklinga og biðtíminn eykst eðlilega í kjölfarið.
Af hverju eiga Suðurnesjamenn ekki sama rétt og aðrir landsmenn á góðri heilbrigðisþjónustu? Af hverju er þetta ekki lagað ár eftir ár eftir ár? Af hverju fær HSS ekki meira fjármagn? Af hverju er framkvæmdastjórn HSS ekki sýnilegri og talar máli sinnar stofnunar út á við? segja deildarstjórar Slysa- og bráðamótttöku HSS m.a. í grein í blaðinu vikunnar.
Sjá blað vikunnar. Grein deildarstjóranna er á bls. 8.