Thermo Plus er vaxandi fyrirtæki
Thermo Plus var stofnað árið 1998 af Tom Rosengreive og fleiri aðilum en Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar tók einnig þátt í að koma fyrirtækinu af stað. Starfsemin felst í að framleiða kælitæki fyrir bifreiðar og vörugeymslur. Thermo Plus Europe á Íslandi er alíslenskt fyrirtæki og hlutahafar eru um 250 talsins. Aðalfundur félagsins var haldinn fyrir skömmu og þá var ákveðið að setja hlutabréfin á frjálsan markað. Fyrirtækið er að stækka húsnæðið og framleiðslugetan mun margfaldast í kjölfarið. Silja Dögg Gunnarsdóttir heimsótti fyrirtækið og kynnti sér starfsemi þess og það var Kristinn Jóhannesson, framkvæmdastjóri framleiðsludeildar, sem varð fyrir svörum.Íslensk framleiðslaThermo Plus er staðsett í Njarðvík, en framleiðslan hófst í byrjun þessa árs. „Hér vinna um 30 manns við framleiðslu á kælibúnaði. Við smíðum allar málmgrindur og vinnum yfirborðsvinnu en fáum kælielement og plasthlífar, fyrir tækin frá Kanada. Annars höfum við lagt áherslu á að kaupa allt sem hægt er frá birgjum á Íslandi þar sem það er mun hagkvæmara fyrir okkur. Það sem við getum ekki nálgast hér á landi kaupum við frá birgjum í Ameríku, Asíu og Evrópu“, segir Kristinn.Góð samkeppnisstaðaSöluskrifstofa Thermo Plus er í Cambridge í Bretlandi, og þar starfa 6 manns en meirihluti framleiðslunnar fer á markað í Bretlandi. Að sögn Kristins er verið að byggja upp tengsl við aðra markaði. „Við höfum gert samninga við aðila í Brasilíu og Sádí-Arabíu, sem hafa áhuga á sölu og dreifingu“, segir Kristinn og á von á að fleiri nýjir markaðir bætist við á næstunni.Hvernig stendur Thermo Plus í samkeppninni á kælitækjamarkaðinum?„Við stöndum alveg ágætlega og staðsetningin á fyrirtækinu er mjög góð þar sem við erum mjög miðsvæðis. Tækin okkar eru einföld, sterkbyggð og þægileg í meðförum og henta því mörkuðum eins og í Suður-Ameríku og Austurlöndum nær þar sem umhverfishitinn er mikill og þá þarf mjög öflug tæki til kælingar. Verðin hjá okkur er líka vel samkeppnishæf og auk þess getum við veitt viðskiptavinum okkur betri þjónustu en stór fyrirtæki sem eru eingöngu með fjöldaframleiðslu, því smíðum tækin eftir þörfum viðskiptavinanna“, segir Kristinn.Tæknileyfið keypti Thermo Plus frá Kanada en síðan hefur verið unnið að þróun framleiðslunnar og gæði hennar bætt verulega. „Á Evrópumarkaði gilda mun strangari reglur um kælitæki og kröfur um útlit eru líka allt aðrar en í Ameríku. Evrópumenn vilja t.d. hafa tækin mun smærri“, segir Kristinn.Frjáls viðskipti með hlutabréfHluthafar í Thermo Plus eru nú um 250 talsins og stærstir eru Tom Rosengreive með 8%, Hinrik Þorsteinsson með 7%, Fiskiðjan ehf. með 6%, Eignarhaldsfélag Suðurnesja, Hitaveita Suðurnesja og Sjává-Almennar með 5% hvort um sig. Aðalfundur félagsins var haldinn fyrir skömmu og þá voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins á viðskiptum með hlutabréf. „Hlutabréfaviðskiptin voru gefin frjáls og þessir 250 hlutahafar, geta þá selt bréfin sín án þess að aðrir hlutahafar hafi forkaupsrétt“, útskýrir Kristinn en bætir við að hann geti ekki sagt til um hvort þessi breyting muni hafa áhrif á verð bréfanna.Flytja í stærra húsnæði„Nú er verið að byggja yfir Fiskiðjuhúsið, sem stendur við hlið núverandi húsnæðis, en það mun hýsa málmsmíðina, mötuneytið, lagerinn og starfsmannaaðstöðuna. Samsetning tækjanna mun verða áfram í húsinu sem við erum í núna, en auðvitað verður rýmra um hana og þá getum við aukið framleiðsluna verulega. Í dag er framleiðslugetan 5-8 tæki á dag en við áætlum að fara í 30-50 tæki á dag, þannig að við munum fjölga starfsfólki“, segir Kristinn og bætir við að starfsaðstaðan muni jafnframt batna til muna við stækkunina.Ánægt starfsfólk er lykillinnFyrirtækið hefur frá upphafi lagt mikið upp úr að gera vel við starfsfólk sitt og er að móta starfsmannastefnu í samvinnu við Verkalýðs- og sjómannafélag Suðurnesja. Verið er að auglýsa eftir framleiðslustjóra sem mun í hafa yfirumsjón með starfsmannamati sem verður gert á þriggja mánaða fresti. „Matið felst í að störf fólks eru metin og hver starfsmaður fer reglulega í stutt viðtal hjá framleiðslustjóra. Við viljum gera vel við okkar fólk og gefa því tækifæri á að vaxa innan fyrirtækisins. Þeir sem sýna góð og sjálfstæð vinnubrögð geta þá unnið sig upp hjá okkur. Við teljum nauðsynlegt að vera með hvetjandi kerfi fyrir það fólk sem stendur sig í vinnunni hjá okkur því ánægt starfsfólk er lykillinn að velgengni fyrirtækisins“, segir Kristinn.