Þemadagar í Holtaskóla
Nú dagana 15.-17. mars eru þemadagar í Holtaskóla. Þemað í ár eru þjóðsögur af Suðurnesjum og mun 1.-4. bekkur einbeita sér að álfum og huldufólki, 5.-7. bekkur tekur fyrir tröll og aðrar kynjaverur og 8.-10. bekkur glímir við drauga. Nemendur vinna í hópum þar sem hver hópur tekur fyrir eina sögu og útfærir hana með myndrænum og tónrænum hætti. Nemendur halda síðan út í bæ með afraksturinn og flytja verkin sín fyrir stofnanir og fyrirtæki.
Þemadagarnir haldast í hendur við árshátíð skólans sem verður föstudaginn 18.mars en þar munu nemendur flytja enn önnur atriði tengd þjóðsögum. Eftir skemmtidagskrána verður að venju boðið til kaffisamsætis í Holtaskóla fyrir nemendur og foreldra þar sem okkar ágætu foreldrar leggja til allar veitingar.