Thelma Dís til Bandaríkjanna

Thelma Dís Ágústsdóttir, besti leikmaður kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta undanfarin tvö ár er á leið til Bandaríkjanna þar sem hún mun leika með háskólaliði Ball State University í Indiana á næsta tímabili. Þetta staðfesti hún við karfan.is Ball State leikur í Mið-Ameríkudeild efstu deildar háskólaboltans í Bandaríkjunum og skilaði þriðja besta sigurhlutfalli 12 liða deildarinnar í fyrra.

Í fréttinni á karfan.is kemur fram að þjálfari liðsins sé afar ánægður að hafa fengið svo sigursælan leikmann til liðs við skólann og að hún búi bæði yfir vinnusemi og hæfileikum sóknarlega sem eigi eftir að nýtast liðinu. Segir hann hana ennfrekar eiga eftir að falla vel að því kerfi sem liðið fer eftir og að þau hlakki til að fá hana út eftir að hún klárar að spila fyrir Ísland í U20 Evrópumóti sumarsins.

Það er einnig ljóst að skarð hennar í Keflavíkurliðinu verður vandfyllt. Hún hefur verið lykilleikmaður liðsins síðustu tvö árin en árið 2016-17 vann liðið alla stóru titlana sem voru í boði og Thelma var þá valinn besti leikmaður deildarinnar. Á síðustu leiktíð varð liðið bikarmeistari og komst í undanúrslit Domino’s deildarinnar.