Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þekkt vörumerki ekki nóg
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Föstudagur 10. október 2014 kl. 09:00

Þekkt vörumerki ekki nóg

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri FLE, svarar gagnrýni vegna umdeilds forvals.

„Við höfum fylgt ferlinu í forvalinu af erlendri fyrirmynd frá a-ö. Höfum m.a. fengið viðkvæmar trúnaðarupplýsingar frá umsækjendum og í einhverjum tilfellum gleymdist kannski að svara eða var ekki svarað einhverju sem við óskuðum eftir og þá gátum við ekki gefið viðkomandi hátt fyrir einhverja þætti á skorblaðinu. Það var allur gangur á því en samt skýrt hvers óskað var eftir. Það er ekki nóg að skrifa: Það þekkja allir þetta vörumerki. Þetta er stór hluti af því hvers vegna sumir eru ósáttir við sína niðurstöðu,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eíríkssonar. Töluverð umræða hefur verið um forval vegna útleigu á verslunar- og veitingarrými í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Hlynur ræddi málin við blaðamann Víkurfrétta.

Forval en ekki útboð
Einhverjar vangaveltur hafi verið um hvort um hafi verið að ræða útboð eða forval. „Ákvörðun um að veita rými undir verslunarrekstur eða veitingarekstur með útboði getur leitt af sér of há og óraunhæfa tilboð. Þá hefðum við kannski fjárfest í rekstraraðila sem hefði kannski ekki getað sína veltutengdu leigu af sölunni. Þannig er forvalsleiðin betri. Í íslenskum lögum segir að útboð gildi ekki um útleigu rýma. Í forvali erum við að ákveða hverjir fá leigu á rými. Þetta hefur því aldrei verið útboð og því hafa ekki gilt útboðsreglur. Við erum bundin þeim trúnaði að veita ekki upplýsingar sem lagðar voru inn til grundvallar né hvað við gáfum í skor. Gagnsæið gekk út á það að allir sátu við sama borð og áttu að skila inn sömu gögnum, sem ítarlega var gert grein fyrr í forvalsgögnum“ segir Hlynur.   



Fríhöfnin eina fyrirtækið utan forvals
Tvö fyrirtæki af Suðurnesjum hafa verið í veitingarekstri í flugstöðinni og Hlynur er spurður hvort ekki hefði átt að kappkosta að hafa þau inni áfram. „Við töldum ekki færanlega leið að velja einhverja aðila sérstaklega af þeim sem hér hafa verið með rekstur vegna þess að þeir eru af svæðinu. Meginmarkmiðið var að hámarka heildartekjurnar og að verslanir gætu líka hámarkað sínar tekjur í endurhönnuðu umhverfi. Eina fyrirtækið sem fór ekki í forval var dótturfélagið Fríhöfnin, sem selur áfengi, sælgæti, tóbak og snyrtivörur,“ segir Hlynur og bætir við að hlutverk flugstöðvarinnar sé að leggja áherslu á íslenskt. „Við viljum þó leggja mesta áherslu á að vöruúrvalið verði þannig að það henti gestum okkar sem best. Í dag er hlutfall erlendra gesta 70% og það eykst að öllum líkindum á næstu árum. Þeir vilja bæði sjá erlent og íslenskt vöruúrval. Við erum að vonast til að blanda að vörum, veitingum ásamt áherslum í þemahönnun skili sér í jákvæðri upplifun.“

Reynsla og þekking starfsfólks mikilvægar
Eins og fram kom í forsíðufrétt Víkurfrétta fyrir viku mun fólk af Suðurnesjum hafa forskot á störf í flugstöðinni. Hlynur segir að nýir rekstraraðilar hafi látið vita af því að þeir vilji hafa það sem fyrsta val. „Starfsfólkið á svæðinu hefur forskot því það er með passa á svæðið, þekkingu um hvernig er að vinna hérna, hvernig vaktavinnan gengur fyrir sig og mikilvæga reynslu af svæðinu. Við erum alveg fullviss um það að með meiri sölu, veltu, þjónustu, stærri veitingastöðum og verslunum mun á endanum þurfa enn fleira starfsfólk héðan af Suðurnesjum til að vinna þessi störf.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Auknar gjaldeyristekjur og íslensk hönnun
En hvað með hagsmuni almennings, borga erlendu fyrirtækin skatt til íslenska þjóðarbúsins? „Já, þau eru stofnuð sem íslensk fyrirtæki og greiða í sjálfu sér beina og óbeina skatta og gjöld til íslenska ríkisins. Meginhluti af öllum rekstri verður hér á landi. Þeim mun meiri og hraðari uppbygging sem verður á flugstöðinni og rekstri hennar, því fleiri útlendingar koma til landsins og skila þar af leiðandi auknum gjaldeyristekjum inn í landið,“ segir Hlynur. Rekstrareiningarnar á svæðinu í flugstöðinni verða 13 og af þeim eru sex verslanir sem halda áfram og einn veitingastaður. „Íslenskum hönnuðum verða gefin aukin tækifæri í sama mæli og var. Íslensk merki eru orðin allt að 20% af veltunni og þessir aðilar átta sig á að hér er markaður sem er öðruvísi en annars staðar, sérstaklega vegna mikils uppgangs á síðustu árum í hönnun. Veitingar verða einnig að mestu íslenskar og hráefnið líka.“

Ráðgjafinn einnig í valnefndinni
Erlendi ráðgjafinn í forvalinu var einnig í valnefndinni, er það eðlilegt? „Já, erlendi aðilinn er algjörlega óháður. Við lögðum mikið upp úr því að viðkomandi ráðgjafi gerði áætlun um hvað hægt væri að fá út úr svæðinu og að hann myndi vinna með okkur áfram með að stilla upp rekstrarmódelinu þannig að samningar yrðu rétt samsettir, þ.e. að veltugjaldið sem rynni til Isavia yrði eðlilegt. Þess vegna var mikilvægt að við tækjum ekki tilboðum sem voru óraunhæf. Ráðgjafinn þekkir það,“ segir Hlynur og tekur sérstaklega fram að t.d. sé megintilgangur af rekstri Fríhafnarinnar að skapa tekjur til móðurfélagsins og þannig stuðla að frekar uppbyggingu Keflavíkurflugvallar



Aukið álag í vopnaleit
Farþegafjöldinn um flugstöðina hefur tvöfaldast á álagstíma og það veldur álagi í vopnaleit. Hlynur segir að ef fjölga eigi flugvélum liggi ljóst fyrir að það verði að auka hraðann þar, sem og sjálfvirkni eins og víða er á flugvöllum og um leið aðbúnað starfsfólks. „Starfsfólk í öryggisleit hefur staðið sig mjög vel miðað við álagið sem fylgir fjölgun farþega.“

Fríhöfnin á að skapa tekjur til Isavia
Þegar hálfsársuppgjör Fríhafnarinnar var birt í fjölmiðlum fyrir skömmu vakti athygli að húsnæðiskostnaður hafði aukist um 30% á milli ára og tap varð á rekstri Fríhafnarinnar á fyrri hluta ársins. Að sögn Hlyns er stærsti hluti húsaleigu veltutengdur, ákveðið hlutfall af veltu fari til móðurfélagsins Isavia sem síðar sé notað til uppbyggingar á flugstöðinni og flugvellinum til að geta tekið á móti fleiri farþegum. „Það er beint samhengi á milli þeirra tekna sem við öflum í verslunar- og veitingarekstri og hversu vel við getum byggt upp og bætt þjónustu, lækkað flugvallaskatta og slíkt,“ segir Hlynur og að hækkun á húsaleigu á milli ára haldist í hendur við söluaukningu hjá rekstraraðila. „Seinni helmingur í hálfsársuppgjöri er það sem endurspeglar frekar rekstrarstöðu fyrirtækja því húsnæðiskostnaður er hluti af þeim fyrri. Megintilgangur af rekstri Fríhafnarinnar að skapa tekjur til móðurfélagsins og þannig stuðla að frekar uppbyggingu Keflavíkurflugvallar,“ segir Hlynur að lokum.

 

VF/Olga Björt