Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Þeir voru báðir mjög kaldir og þrekaðir“
Föstudagur 23. janúar 2004 kl. 13:23

„Þeir voru báðir mjög kaldir og þrekaðir“

Birkir Agnarsson formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík sagði í samtali við Víkurfréttir að útkall hafi komið til björgunarsveitarinnar klukka 11:17 og að tilkynnt hafi verið um að báti hafi hvolft í innsiglingunni og að þrír menn væru um borð í bátnum. „Við sendum strax Odd V. Gíslason af stað og einnig slöngubjörgunarbátinn Hjalta Frey. Þegar bátarnir koma á staðinn sjá þeir strax mann sem er í sjónum, en heldur í gúmmíbjörgunarbát utan við eystri brimgarðinn. Sökum brims náði Oddur ekki að komast að manninum, en slöngubáturinn Hjalti Freyr sætti lagi og náði að skjótast að manninum,“ segir Birkir en maðurinn var dreginn með bátnum út fyrir mesta brimið. „Þegar Hjalti Freyr er á leið í land sér áhöfnin á Oddi annan mann sem er í sjónum í brimrótinu utan við garðinn, nær innsiglingunni. Áhöfnin á Hjalta Frey fór þá á staðinn og náði manninum um borð, en þeir voru báðir mjög kaldir og þrekaðir.“

Að sögn Birkis eru björgunarsveitarmenn að hefja vinnu við að festa bátinn, en ekki er vitað hvort reynt verður að draga hann af strandstað.

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Eins og sjá má á myndinni var mikið brimrót við brimgarðinn í Grindavík þar sem Sigurvin GK strandaði. Í baksýn má sjá Odd V. Gíslason, björgunarskip björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.

 

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Mönnunum var bjargað um borð í Hjalta Frey, slöngubát björgunarsveitarinn Þorbjarnar í Grindavík. Myndin er tekin í stjórnstöð Þorbjarnar þegar báturinn var tekinn inn eftir björgunina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024