Þátttaka í íþróttum og tómstundum getur skipt sköpum

„Það er mjög fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf í bænum okkar. Þátttaka barna og ungmenna í slíku starfi getur skipt sköpum,“ segir Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar, í viðtali við FFGÍR, Foreldrafélög grunnskólanna í Reykjanesbæ.

„Það kennir ýmissa grasa hjá okkur. Stærstu íþróttirnar eru að sjálfsögðu sund og fimleikar, ásamt körfu- og fótbolta. Það eru margar góðar íþróttagreinar í gangi. Svo er líka fjölbreytt tómstundastarf í boði. Við erum með félagsmiðstöð fyrir 13 til 16 ára krakka og einnig ungmennahús fyrir 16 ára og eldri. Svo er gott starf, bæði hjá KFUM og KFUK, Skátunum og mörgum öðrum,“ segir Hafþór og hvetur börn til þátttöku í starfinu.

FFGÍR vill einnig hvetja foreldra til að skrá börn sín til þátttöku nú þegar skólastarf er að hefjast. Foreldrar geta sótt um Hvatagreiðslur, en fyrir hvert barn eru þær 21.000 krónur. Upplýsingar um Hvatagreiðslurnar er að finna á mittreykjanes.is. Þeir sem eiga í erfiðleikum með að sækja um greiðslurnar geta haft samband við Hafþór.