Þátttaka að glæðast í prófkjöri Sjálfstæðismanna
„Þetta var nokkuð rólegt fram að hádegi en er að glæðast. Um kl. 15.30 voru um 750 manns í Reykjanesbæ búnir að taka þátt. Ég hef heyrt að þátttaka í hinum sveitarfélögunum á Reykjanesi hafi verið góð,“ sagði Magnea Guðmundsdóttir, formaður undirkjörstjórnar prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi en kosið er í Kjarna að Hafnargötu 57 í Keflavík og á fleiri stöðum í hverju bæjarfélagi á Reykjanesi.
Magnea sagðist nokkuð ánægð með þátttökuna en prófkjörið er opið flokksbundnum sjálfstæðismönnum og þeim sem skrá sig í flokkinn á kjörstað.
Vitað er að Suðurnesjamenn höfðu nokkrar áhyggjur af því að þátttaka í Vestmannaeyjum var svipuð og í Reykjanesbæ á hádegi, um 350 manns. Gárungarnir voru sumir með áhyggjusvip því Suðurnesjamenn berjast með Ragnheiði Árnadóttur í efsta sætið en sem kunnugt er þá býður Eyjamaðurinn Árni Johnsen sig einnig í toppsætið.
Samkvæmt fréttum úr Eyjum munu gögn ekki berast þaðan fyrr en á morgun og því verður ekki talið fyrr en þá.
Það er kosið samkvæmt gamla mátanum hjá Sjálfstæðismönnum. Á efstu myndinni má sjá Ragnheiði Árnadóttur með hjónunum Birnu og Steinari Sigtryggssyni.
Það var líf og fjör í Kjarna. Að neðan má sjá feðginin Jóhann Pétursson og Sóleyju Jóhannsdóttur.
Ragnheiður spjallaði við marga kjósendur sem komu í Kjarna til að taka þátt í prófkjörinu.