Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Þarf að leita svara hjá þeim sem mótuðu stefnuna“
Föstudagur 7. nóvember 2014 kl. 11:48

„Þarf að leita svara hjá þeim sem mótuðu stefnuna“

-segir Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar

Friðjón Einarsson oddviti Samfylkingar í Reykjanesbæ kveðst ánægður með íbúafundinn sem haldinn var í Stapa á dögunum, þar sem fjármál bæjarins voru kynnt.. „Við erum að byrja langt og strangt ferli og erum í mikilli vinnu með það. Við erum þakklát með viðtökur á þeim upplýsingum sem við erum að leggja fram. Við erum í þeirri vinnu að skilgreina og fljótlega munum við leggja fram nýja fjárhagsáætlun,“ segir Friðjón. Hann segir fundinn fyrst og fremst hafa snúist um tölulegar upplýsingar frá bæjarsjóði. „Ég veit að það hefur verið mikið áfall fyrir íbúa að heyra um raunstöðu bæjarins, þess vegna er ég sérstaklega ánægður með hvernig fundurinn fór vel fram. Ég átti ekki von á öðru í sjálfu sér.“

Hvaða varðar fortíðina og ástæður þess að staðan er eins og hún er, segist Friðjón ekki telja í sínum verkahring að svara fyrir það. Þeir sem voru við stjórnvölinn verði að gera það.
„Að mínu viti er eiginlega ekki hægt að skilja fortíð og framtíð að. Það er ljóst að við erum í þessum vandamálum vegna fortíðarinnar. Þeir sem réðu ríkjum áður þurfa að svara fyrir þessar tölur sem kynntar voru á fundinum. Ég lít ekki svo á að það sé mitt að gera það. Það vita það allir sem fylgjast með stjórnmálunum í Reykjanesbæ að ég hef gagnrýnt fjárhagsáætlanagerð í fjölmörg ár, þannig að þessar tölur koma mér að sjálfu sér ekkert á óvart. Það er þó alveg ljóst að þetta hefur ekkert með herinn að gera. Staðan er slæm og það þarf að leita svara hjá þeim sem mótuðu stefnuna á þessum tólf árum, þeir þurfa að svara fyrir það, ég mun ekki gera það.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Varðandi komandi aðgerðir, Sóknina svokölluðu, segist Friðjón vera bjartsýnn.
„Ég vil bara hugsa um framtíðina, íbúarnir eiga það skilið að við einbeitum okkur að því sem koma skal. Ég er bjartsýnismaður og trúi því að við getum þetta, við þurfum bara að vanda okkur. Við þurfum að gera umtalsverðar breytingar í rekstrinum og verðum að sníða okkur stakk eftir vexti, það er kannski lykilatriði í þessu en ég tel okkur geta það,“ bætir Friðjón við.

Gerðuð þið í minnihlutanum á síðasta kjörtímabili nægilega mikið til þess að hafa áhrif á stöðuna?
„Það er bara eðli stjórnmálanna að þeir sem ráða á hverjum tíma hafa mikið vald. Minnihluti getur stundum lítið gert annað en að benda á. Við reyndum að gera það allan tímann en því miður var ekki hlustað nóg á okkur. Það er þó auðvelt að vera vitur eftir á.“

Friðjón segir að samstaðan sé mikil og samstarf gott. „Ég get ekki þakkað nóg þessu fólki sem er að koma að þessu. Menn hafa talað einni röddu og leyst sín mál innandyra. Samstarfið hefur verið afspyrnugott bæði hvað varðar starfsmenn og samstarfsaðila og ég er afar stoltur af því. Bæjarstjórnin hefur komið mjög heil út í þessu máli,“ segir hann að endingu.