Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þarf að bæta samgöngur til Grindavíkur
Lóa Bergljót Þorsteinsdóttir hótelstjóri Geo Hótel
Sunnudagur 10. september 2017 kl. 09:00

Þarf að bæta samgöngur til Grindavíkur

- Segir Lóa Bergljót Þorsteinsdóttir hótelstjóri Geo Hotel. Reksturinn hefur gengið vel en samdráttur í bókunum fyrir næsta ár

Lóa Bergljót Þorsteinsdóttir er hótelstjóri á Geo Hotel í Grindavík en hótelið er til húsa í gamla Festi og hefur reksturinn síðastliðin tvö ár gengið mjög vel. Lóa segist hins vegar finna fyrir því að hátt gengi krónunnar sé farið að segja til sín og að ferðamaðurinn spari örlítið meira en hann gerði áður.

Vantar betri samgöngur
Geo Hotel leggur mikið upp úr því að hafa afslappað og heimilislegt andrúmsloft. Staðsetning hótelsins heillar marga ferðamenn en það eru aðeins tíu mínútur frá hótelinu að Bláa Lóninu og þeir sem gista á hótelinu geta fengið far í Lónið ef þeir óska eftir því. „Við mælum samt sem áður með því að fólk sé á eigin bíl ef það ætlar að skoða sig um, sérstaklega ef það stoppar stutt,“ segir Lóa, en samgöngur á milli Grindavíkur og höfuðborgarinnar og til Reykjanesbæjar eru af skornum skammti og Lóa segir að bæta þurfi verulega úr þeim.
Hún segir einnig að rútuferðir frá Bláa Lóninu og til Reykjavíkur séu vel nýttar af þeim sem gista hjá þeim en að ferðamaðurinn sé samt sem áður bundinn opnunartíma Bláa Lónsins sem styttist á veturnar. Sumum finnst það ekkert mál á meðan öðrum langar að vera lengra fram á kvöld í höfuðborginni til þess að borða góðan mat og njóta kvöldsins. Þá er eini vakosturinn leigubíll ef þú ert ekki með bílaleigubíl. Verð á leigubíl frá Reykjavíkur til Grindavíkur getur kostað svipað og gisting yfir eina nótt á hótelinu.
Geo Hotel er með 36 herbergi og 75 rúm og hafa gestir verið duglegir að gefa því einkunn á Facebook síðu þess, sem og á Trip Advisor.
Morgunmaturinn er lofaður, flestir eru sammála því að það sé notalegt að gista á hótelinu og að rúmin séu góð, frábært sé að hafa Nettó búðina við hliðina á hótelinu, sundlaugin sé nánast í bakgarðinum og humarsúpan á Bryggjunni er orðin heimsfræg að sögn Lóu. Það skemmir heldur ekki fyrir að flugvöllurinn sé í tuttugu mínútna fjarlægð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Erfitt að ráða starfsmenn
Það er orðið erfiðara að ráða fólk í vinnu að sögn Lóu en hún finnur fyrir því eins og aðrar starfsstéttir. Fólk sem vinnur á hótelinu þarf helst að vera búsett í Grindavík eða nágrenni þess og það getur reynst erfitt vegna skorts á húsnæði. Lítið sem ekkert leiguhúsnæði er í boði og því erfitt að fá fólk til vinnu. Fáir vilja líka nota einkabílana sína til að keyra á milli vegna kostnaðar og komutími rútunnar til Grindavíkur hentar ekki alltaf vinnutíma hótelsins.
„Gengið tekur sinn toll finn ég. Fólk fer ekki eins mikið út að borða og það gerði áður. Það fer mikið í Nettó og kaupir sér eitthvað frekar en að fara út að borða.“ Eftir að gengið hækkaði segist Lóa taka vel eftir því eftir að ferðamenn fari minna út að borða því ruslið og matarafgangar hafi aukist töluvert inni á herbergjum.
Þjónusta í Grindavík hefur aukist til muna á síðastliðnum tveimur árum, Nettó lengdi opnunartímann sinn og einn veitingastaður hefur bæst við flóruna. „Það er mikill uppvöxtur í ferðamannaiðnaðinum hér í Grindavík,“ segir Lóa en litlar sem engar samgöngur til og frá bænum hafa neikvæð áhrif.

Sækja í kyrrðina
Ýmsar náttúruperlur eru í nágrenni Grindavíkur, þar á meðal Hópsnesið. „Ferðamönnum finnst gott að koma í kyrrðina og vera með sjálfum sér. Starfsmenn hótelsins eru duglegir að segja þeim frá ýmsum gönguleiðum á svæðinu, til dæmis Hópsneshringnum þar sem skipsflök og húsarústir eru ásamt kindum og hestum. Þessi kyrrð og útivera gerir flesta dolfallna, margir fara líka þangað til að sjá sólarlagið,“ segir Lóa.
Bókað er langt fram í desember hjá Geo Hotel og eru áramótin þéttbókuð enda vinsæll tími fyrir ferðamenn hér á landi. Lóa segir hins vegar að hún sjái minnkun í bókunum vegna skattlagningar á ferðamannaiðnaðinn, ásamt háu gengi krónunnar.


 

Töluverðar breytingar hafa orðið á gamla Festi sem nú er Geo Hótel.