Þakka Hughrifum í bæ
– Áfram verði unnið að þróun skapandi sumarstarfa
„Verkefnið Skapandi sumarstörf er verkefni á vegum menningarfulltrúa Reykjanesbæjar sem hefur verið unnið í góðu samstarfi við umhverfissvið. Markmið þess er að brjóta upp hversdagsleikann og lífga upp á bæinn með ýmsum leiðum og gefa um leið ungu fólki möguleika til að sinna störfum þar sem reynir á skapandi og lausnamiðaða hugsun.
Verkefnið var keyrt í fyrsta sinn síðasta sumar fyrir tilstuðlan styrkjar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það þótti takast það vel að samþykkt var að bjóða upp á það aftur í sumar.
Tveir verkefnastjórar, Hildur Hlíf Hilmarsdóttir og Ingvi Hrafn Laxdal, stýrðu starfinu með fimmtán manna hópi ungmenna átján ára og eldri. Saman vann hópurinn að sautján mismunandi verkefnum sem lífguðu upp á bæinn í einni eða annarri mynd og var afrakstrinum einnig miðlað á samfélagsmiðlum. Skýrsla unnin af verkefnastjórum var lögð fram þar sem gerð er grein fyrir afrakstri og helstu áskorunum starfsins og hugmyndir að þróun verkefnisins reifaðar.
Menningar- og atvinnuráð Reykjanesbæjar þakkar Hughrifum í bæ fyrir þeirra framlag og hvetur til þess að haldið verði áfram þróun við skapandi sumarstörf. Þá mælir ráðið með að gert verið ráð fyrir viðbótarfjármagni til skapandi sumarstarfa í næstu fjárhagsáætlun,“ segir í fundargögnum frá síðasta fundi ráðsins.