Þakjárn fauk um gamla bæinn
Fjölmörg óveðursútköll hjá björgunarsveitum
Þakplötur fuku um gamla bæinn í Keflavík um miðnætti í gærkvöldi eftir að hluti af þaki gamla HF við Hafnargötu 2 fauk. Skæðadrífa af plötum var um Túngötu og Íshússtíg. Um tíma var ekki óhætt að eiga við plöturnar því svo hvass var vindurinn.
Skömmu áður en þakjárnið fauk af Hafnargötu 2 flettist þakjárn af Hafnargötu 8 og fauk m.a. á hús við Túngötu. Fjölmennt lið frá Björgunarsveitinni Suðurnes var kallað að húsinu og nutu björgunarmenn aðstoðar frá slökkviliði Brunavarna Suðurnesja sem mætti með körfubíl á vettvang.
Þakkantar losnuðu víða í veðrinu seint í gærkvöldi og ýmislegt lauslegt fór af stað í veðrinu. Hópar björgunarsveitarfólks foru á ferðinni fram á nótt við að sinna ýmsum verkefnum. Þá sáu björgunarsveitir einnig um að loka Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi fyrir umferð.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi í útköllum gærkvöldsins og næturinnar.
Björgunarsveitin Suðurnes og slökkvilið Brunavarna Suðurnesja unnu saman við að festa þak á Hafnargötu 8.
Björgunarsveitarfólk á svellbunka við Hafnargötu að ljúka útkalli þar sem þakkantur var laus.
Björgunarsveitarfólk gætir að öryggi og fer aldrei upp á þak nema vera í öryggislínu.
Þakkantur negldur fastur.
Það þurfti víða að negla járn sem var að losna í veðurhamnum í gærkvöldi og nótt.
Björgunarsveitarfólk hemur járnplötur við Túngötu í Keflavík en þak fauk að hluta af gamla HF við Hafnargötuna. VF-myndir: Hilmar Bragi