Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Það tekur því ekki vinna fyrir svona fífl” telst ekki uppsögn
Fimmtudagur 24. júní 2004 kl. 18:24

„Það tekur því ekki vinna fyrir svona fífl” telst ekki uppsögn

Útgerðarfélag í Keflavík var dæmt í dag til að greiða fyrrverandi yfirvélstjóra og fyrrverandi stýrimanni á fiskiskipi í eigu félagsins tæpar 2,3 milljónir króna auk vaxta og 360.000 krónur í málskostnað fyrir ólögmæta uppsögn í fyrrasumar og fyrrahaust. Fengu báðir sjóveð í skipinu fyrir hinni dæmdu fjárhæð ásamt vöxtum.  Morgunblaðið á Netinu greinir frá þessu í dag.
Hjá vélstjóranum var annars vegar um að ræða vangoldin laun upp á rúmar 220 þúsund krónur og laun í 3ja mánaða uppsagnarfresti upp á rúmar 815 þúsund. Ber sú upphæð dráttarvexti og verðbætur frá í júlí í fyrrasumar. Auk þess þarf útgerðarfélagið að greiða manninum 180 þúsund í málskostnað.
Ágreiningslaust var að vélstjórinn kom um borð eftir að hafa neytt áfengis. Skipstjórinn sagði honum þá upp fyrirvaralaust og vísaði honum frá borði sökum ölvunar. Ekki var um ítrekað brot að ræða og vélstjóranum hafði ekki áður sætt áminningu en í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að þessi þættir þurfi að vera til staðar til þess að fyrirvaralaus riftun á ráðningarsamningi geti talist lögmæt samkvæmt sjómannalögum. Eins og uppsögnina bar að yrði því að telja hana ólögmæta og útgerðarfélaginu bótaskylt af þeim sökum.
Þá var útgerðarfélagið dæmt til að borga stýrimanni á sama skipi tæpar 1,2 milljónir vegna vangreiddra launa auk dráttarvaxta frá í nóvember sl. Kastast hafði í kekki með stýrimanninum og skipstjóranum. Leit skipstjórinn svo á að stýrimaðurinn hefði sagt upp með orðunum „það tekur því ekki vinna fyrir svona fífl” er þeir kvöddust í vikulok að lokinni veiðiferð og ekki mætt til vinnu eftir helgina.
Segir dómari að forsvarsmanni útgerðarfélagsins, skipstjóranum, hafi borið að ganga úr skugga um það hvort skilja bæri orð stefnanda sem riftun á ráðningarsamningi hans. Mótmælti stýrimaðurinn að svo hefði verið og sagðist hafa beðið eftir kalli í næsta túr en aldrei heyrt frá skipstjóranum sem siglt hefði án sín og hafi hann því litið svo á að sér hefði verið sagt upp skipsrúmi.
Lagði dómari sönnunarbyrðina á þessari málsástæðu á útgerðarfélagið og þótti það ekki hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti að með orðunum „það tekur því ekki vinna fyrir svona fífl” hafi stýrimaðurinn rift ráðningarsamningi sínum.
Auk 1,2 milljónar króna greiðslu vegna vangoldinna launa og laun á 3ja mánaða uppsagnarfresti var útgerðarfélagið dæmti til að borga málskostnað stýrimannsins, 180.000 krónur. Fékk stýrimaðurinn jafnframt sjóveðrétt í skipinu fyrir hinni dæmdu fjárhæð ásamt vöxtum.
Samtals var því útgerðarfélagið að borga tveimur fyrrverandi skipverjum á skipi sínu 2,3 milljónir króna í bætur og 360 þúsund í málskostnað, segir í netútgáfu Morgunblaðsins, mbl.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024