„Það er bara ekki nóg að rífa kjaft á heimavelli en standa svo ekki í lappirnar þegar á hólminn er komið“
Segir Oddný Harðardóttir um fjarveru þingmanna af Suðurnesjum í tillögu um eflingu atvinnulífs og samfélags á Suðurnesjum.
Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingar, lagði fram á Alþingi á dögunum þingsályktunartillögu um eflingu atvinnulífs og samfélags á Suðurnesjum. Oddný og Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, voru einu þingmenn Suðurnesja sem komu að tillögunni. Í síðasta tölublaði Víkurfrétta svöruðu þingmenn svæðisins fyrir það að hafa ekki stutt tillöguna. Bæði Oddný og Páll eru ósátt við þá ákvörðun þingmannana og gefa lítið fyrir svör þeirra.
Oddný segir að vissulega hafi verið hugað að atvinnulífinu með ýmsum hætti hér á Suðurnesjum en árangurinn hafi of oft látið á sér standa. „Við skulum þó ekki gera lítið úr þeim árangri sem hefur náðst. Atvinnuleysið hefur farið úr 15% þegar það var mest í um 5% sem það er þessa dagana. Engar töfralausnir liggja á lausu og verða ekki gripnar upp úr grjótinu. Hér hefur verið einblínt um of á stórar og dýrar hugmyndir eins og t.d. stóriðju eða álver sem hefur átt að leysa allan vanda og nánast fylla upp í það skarð sem brottför varnarliðsins skyldi eftir. Vandinn liggur mun dýpra. Hér var iðulega atvinnuleysi löngu áður en varnarliðið fór og tengdist m.a. því að fiskveiðikvóti var seldur frá svæðinu eins og kunnugt er. Sú áhersla sem ég hef lagt á að efla menntunarstig og að efla nýsköpun og þróun sprotafyrirtækja er ekki út í bláinn. Það er enginn vafi á því að það er það sem mun skila okkur flestum atvinnutækifærum og bættum lífskjörum til lengri tíma.
Finnst þér að þú hefðir getað gert meira fyrir svæðið þegar þú varst fjármálaráðherra?
Ég hef aldrei kveinkað mér undan gagnrýni sem byggir á rökum en sú gagnrýni sem ég varð fyrir þann tíma sem ég var fjármálaráðherra frá þeim sem styðja þá flokka sem eru nú í ríkisstjórn fannst mér ósanngjörn. Þau sem hæst létu þá eru þau sömu og sitja aðgerðalaus við stjórnartaumana núna. Miðað við þær aðstæður sem þjóðarbúið var í þá var heilmargt gert í minni tíð sem ráðherra og sneri ekki aðeins að Suðurnesjum. En aðstæður ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og þeirrar sem nú situr eru gjörólíkar, nánast eins og svart og hvítt. Vinstri stjórnin var að róa lífróður á þjóðarskútunni til að forða þjóðargjaldþroti. Þá fer enginn í kaffi- eða kokteilboð. Og okkur tókst að rétta þjóðarbúið við þó að staðan væri nánast vonlaus. Þá voru einfaldlega ekki til fjármunir í ríkissjóði til að leggja í stór verkefni, en við komum þó ýmsu til leiðar. Ég sé að Páll Jóhann nefnir það sérstaklega að „tveir fjármálaráðherrar hafi ekkert gert.“ Það er nánast fyndin staðhæfing. Hann ætti e.t.v. að rifja upp árangur þeirra ríkisstjórna sem hér sátu í miðju svokölluðu „góðæri“. Hvaða verkefni skyldu þau hafa stutt hér á Suðurnesjum? Man það nokkur?
Við, í miðri efnahagskreppu, gerðum fjóra fjárfestingarsamninga á Suðurnesjum, sem er meira heldur en var gert á sama tíma á öðrum stöðum samtals á landinu öllu. Þeir sneru að álverinu í Helguvík, kísilverksmiðju í Helguvík og gagnaveri Verne Holding á Ásbrú ásamt fiskvinnslu í Sandgerði. Ástæðan fyrir því að álverið fór ekki af stað hefur ekkert með ríkisstjórn að gera, hvorki þessa né þá fyrri. En ég sé að enn eru sjálfstæðismenn að tala digurbarkalega um að „ýta á Landsvirkjun.“ Hvað eru þeir að tala um? Að orka til álvers hér sé niðurgreidd af almenningi? Eigum við að taka þá peninga frá heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu? Nær væri að tala fyrir því að við Íslendingar njótum arðs af auðlindum okkar.
Ég vil líka nefna að við lögðum mikið á okkur til að efla tækifæri til menntunar á svæðinu í miðri efnahagskreppu og það skilaði sér til fjölmargra, í Fjölbraut, MSS, Keili, Fiskvinnsluskólanum og Þekkingarsetrinu í Sandgerði. Þá gerðum við uppbygginguna á Nesvöllum mögulega. Þetta var gert þrátt fyrir þrönga stöðu ríkissjóðs. Vegna sérstöðu svæðisins og mikils skulda- og greiðsluvanda heimila var sett á laggirnar sérstök velferðarvakt fyrir Suðurnesin og útibú Umboðsmanns skuldara var opnað í Reykjanesbæ.
Nú er staða ríkissjóðs allt önnur en var á árunum 2009-2013 og kominn tími til að byggja á þeim mikla árangri sem við náðum í vinstri stjórninni. Og hvað er þá gert? Hækkaður matarskattur á almenning og komugjöld og kostnaður einstaklinga vegna þjónustu heilbrigðiskerfisins hækkaður umtalsvert en á sama tíma er gefinn stórafsláttur á veiðigjöldum til útgerðarinnar sem skiptir milljörðum. Það væri nú hægt að gera ýmislegt fyrir þá peninga til dæmis í öldrunarmálum, heilbrigðiskerfinu eða skólunum.
Enginn tillaga er að hálfu ríkisstjórnar Sjálfstæðismanna og Framsóknar um ríkisstuðning við nauðsynlegar framkvæmdir við Helguvíkurhöfn vegna Kísilversins. Það gerir hins vegar Samfylkingin ásamt öðrum flokkum í minnihlutanum. Vinstristjórnin samþykkti að þegar fyrirvörum í samningum um atvinnuuppbyggingu yrði aflétt þá fengi Helguvíkurhöfn sömu fyrirgreiðslu og höfnin á Húsavík vegna iðnaðarsvæðisins á Bakka. Nú hefur fyrirvörum verið aflétt vegna kísilversins í Helguvík en engin ríkisstyrkur eins og þeir fá fyrir norðan. Það verður saga til næsta bæjar ef þingmenn stjórnarmeirihlutans í Suðurkjördæmi greiða atkvæði gegn þeirri tillögu okkar í minnihlutanum. En ríkisstjórnin gerir hins vegar tillögum um að teknar verði 700 milljónir frá ISAVIA sem átti að nýta til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Ríkisstjórnin skerðir beinlínis atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum með þessum hætti. Finnst Suðurnesjamönnum það ásættanlegt?
Við í vinstristjórninni vorum með fyrirætlanir um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja, sem mér finnst enn vera algerlega borðleggjandi. Sú hugmynd náði ekki fram að ganga þá en enn er komin tillaga þar um en meiri hlutinn virðist ekki tilbúinn til að styðja hana þrátt fyrir áform um að flytja aðrar ríkisstofnanir frá höfuðborgarsvæðinu. Síðan finnst mér tilvalið að innanlagsflugið verði fært hingað suðureftir, það væri góð nýting á fasteignum og fjármunum.
Hvað finnst þér um að ekki fleiri þingmenn af Suðurnesjum hafi verið meðflutningsmenn? Og um þær skýringar sem þeir gáfu í Víkurfréttum?
Ég viðurkenni að ég var fyrir vonbrigðum með það en ég gef svo sem lítið fyrir þessar skýringar þeirra. Við þingmenn Suðurkjördæmis höfum staðið saman um málefni kjördæmisins og erum t.d. öll flutningsmenn að þingsályktunartillögu um flutning Landhelgisgæslunnar hingað. Þau fundu það ekki hjá sér að styðja það að gerð yrði tímasett aðgerðaráætlun fyrir okkur á Suðurnesjum um hvernig efla megi atvinnulíf hér og samfélag en þau studdu þingsályktun um uppbyggingu í Húnavatnssýslu á vorþinginu! Það er bara ekki nóg að rífa kjaft á heimavelli en standa svo ekki í lappirnar þegar á hólminn er komið. Það þekkjum við í mannlífinu. Kannski hafa þau ekki fengið leyfi frá flokksforystunni til að taka undir tillögurnar, hvað veit ég.
Hvað finnst þér að við getum gert til þess að efla samfélagið og atvinnulífið hér á Suðurnesjum?
Við verðum að horfast í augu við vandann og taka á honum þar sem hann er. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að hér eru veikir innviðir. Þeir koma skýrast fram í of lágu menntunarstigi og afleiðingum langvarandi atvinnuleysis. Það gerir vandann svo ennþá erfiðari viðureignar að nánast er búið að keyra Reykjanesbæ í þrot. Mikill og erfið vinna er framundan hjá nýjum meirihluta við að rétta af fjárhagsstöðu bæjarins. Nú er stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum nær eignalaust, í gjörgæslu eftirlitsnefndar sveitarfélaga og mun ekki geta beitt sér neitt sem heitir í fjárfestingum eða atvinnuppbyggingu. Við þessari stöðu verður að bregðast og í þeim tilgangi var tillaga mín samin. Vandinn sem varð til við brottför hersins og efnahagshrunsins hefur magnast vegna þess að íbúum svæðisins fjölgaði mjög mikið á árunum fyrir efnahagshrun og fjárhagserfiðleikar stærsta sveitarfélagsins verður til þess að svæðið stendur mun veikara en ella. Í þessari stöðu tel ég og aðrir meðflutningsmenn tillögunnar að nauðsynlegt sé að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta vinna tímasetta aðgerðaáætlun í samráði við sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum sem miði að því að efla atvinnu og samfélag á svæðinu.