Það dregur tennurnar úr baráttunni
- þegar kröfur Íslendinga eru aðrar en útlendinganna, segir Grétar Sigurbjörnsson hafnarvörður
Margir af eldri kynslóðinni hér á landi muna eftir 1. maí sem hátíðlegum baráttudegi, þar sem verkafólk arkaði um aðalgötu bæjarins við hljóma lúðrasveitar. Fólk var með kröfuspjöld og íslenska fánann á lofti.
Albert Snorrason og Grétar Sigurbjörnsson, hafnarverðir við Sandgerðishöfn segja 1. maí skipta máli.
Grétar:
„Já, mér finnst hann eiga að skipta máli en hér hjá okkur eru gangandi vaktir því sumir sjómenn taka sér ekki frí þennan dag. Það er þá fólk í landi sem þarf að vinna aflann sem kemur, svo hann er ekki lengur frídagur fyrir allt verkafólk í fiskvinnslu. Dagurinn er virtur að vettugi af mörgum því miður, þótt hann sé merktur sem rauður dagur. Við þurfum til dæmis að vera á vakt hérna hjá okkur.“
Albert:
„1. maí skiptir klárlega máli. Þetta er dagur sem við eigum að nýta til hins ýtrasta, dagur okkar sem eigum að láta í okkur heyra. Verkalýðsforystan þarf að leiða fólkið sitt og knýja fram hækkun launa, til þess eru þau kjörin í stjórn.“
Grétar:„Sjáðu frídag verslunarmanna, hverjir eru að vinna þá? Nú fólkið í verslununum! Sjáðu 1. maí sem er baráttudagur verkamanna en hverjir eru að vinna þá? Verkafólk! Allar stofnanir eru lokaðar, allir eru í fríi en fólkið sem á þessa daga er jafnvel að vinna. Það er búið að veikja þessa lögbundnu frídaga með því að virða þá ekki meira en þetta.“
Albert:
„1. maí eigum við að nýta betur í smáplássum. Það þarf að endurvekja daginn og efla baráttuhug fólks. Verkalýðsforystan á að leiða þetta. Laun verkafólks eru allt of lág. Það er erfiðara að fá Íslendinga í þessi störf út af laununum en útlendingarnir eru jafnvel hæstánægðir og sumir þeirra staldra stutt við í landinu okkar. Þeim finnst þetta jafnvel vera ofurlaun því þeir þekkja ekkert annað en þetta er nánös fyrir okkur hin. Launin eru ekki há fyrir fólkið sem er búsett allt árið hér á landi, þarf að borga af lánum og hafa í sig og á. Það eru margir af þessum útlendingum helvíti duglegt fólk en það veikir launabaráttu okkar sem vinnum verkastörf allt árið þegar hópurinn er orðinn svona blandaður af Íslendingum og öðrum þjóðum. Mér finnst bara verkalýðurinn hér á landi vera mestmegnis útlendingar og fleiri störf eru farin til útlendinga eins og mörg störf á elliheimilum, fiskvinnslan er nær öll í höndum útlensks vinnuafls. Við erum með útlendinga í vinnu alls staðar þar sem Íslendingum finnst launin vera of lág.“
Grétar:
„Það dregur tennurnar úr þessari baráttu þegar kröfur Íslendinga eru aðrar en útlendinganna sem koma hingað til að vinna og eru svo farnir aftur. Sumir ílengjast auðvitað en hitt veikir baráttuna fyrir bættum launum. Þeir fara í störfin sem Íslendingar eru ekki stoltir af að vinna en við getum ekki bara haft menntað fólk í vinnu. Það verða einhverjir að vinna almenn verkastörf. Unga fólkið okkar vill sumt frekar fara á atvinnuleysisbætur heldur en að vinna þessi störf sem eru samt mikilvæg. Það þarf að efla virðinguna hjá okkur sjálfum fyrir þessum störfum.“
Hvað finnst þér um verkalýðsforystuna á landsvísu?
Grétar:
„Mér finnst baráttan hafa verið óskaplega léleg miðað við hvernig var hér áður þegar Gvendur Jaki og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir voru og hétu. Þá var ekkert gefið eftir, steinn í stein. Ég hef ekkert grætt á neinu verkfalli undanfarið. Þau voru baráttufólk sem maður bar virðingu fyrir. Það skiptir máli að hafa gott fólk í forystu verkalýðsins.“
Albert:
„Já, maður leit upp til þeirra. Nú er nýtt fólk komið í verkalýðsforystuna, fólk sem er að slíta barnsskónum.
Grétar:
„Já, maður þarf að gefa þeim tíma og sjá hvaða kraftur er í þessu nýja fólki.“
Áttu minningu um 1. maí?
Grétar:
„Þegar ég var að alast upp þá fór fullt af fólki í kröfugöngu niður Laugaveginn og víðsvegar í bæjum landsins. Þarna voru lúðrasveitir og kröfuspjöld. Í dag er þetta mest lúðrasveitin sem labbar í kröfugöngunni. Það vantar fólkið í göngurnar til þess að berjast fyrir bættum launum. Þegar Gaypride-gangan fer niður Laugaveginn þá tekur fullt af fólki þátt til þess að berjast gegn fordómum sem er bara frábært og hið besta mál. En þegar 1. maí gangan fer fram, þar sem verið er að berjast fyrir betri lífskjörum fyrir alla, þá eru fáir sem mæta.“
Albert:
„Já, svipaðar minningar og Grétar. Mér finnst það bara flott hvað Gaypride-gangan laðar marga til sín en við mættum einnig standa svona vel vörð um lífskjörin okkar og launakjör. Til þess er 1. maí.“