Það að hiti sé á húsum hefur með það að gera hvort þau séu íbúðarhæf
Páll Erland, forstjóri frá HS Veitum, sagði á upplýsingafundi Almannavarna í gær að fyrirtækið væri með starfsfólk á öðrum starfssvæðum sem gæti komið til aðstoðar ef á reynir og þessir atburðir dragast á langinn. „Við höfum líka fengið hjálp og vilyrði frá öðrum veitufyrirtækjum eins og til dæmis Rarik og Veitum, sem eru boðin og búin með mannskap, vélar eða vörur ef á þarf að halda. Þetta eru fyrirtæki í mjög svipaðri starfsemi og þekkja þar af leiðandi vel til verka. Það munu allir leggja sitt af mörkum ef að á reynir,“ sagði Páll.
Páll segir að HS Veitur séu nú þegar búnar að undirbúa rafmagnsleysi í Grindavík á þann hátt að greina kerfið, hvar sé hægt að koma upp varavélum til þess að taka við ef ekki berst rafmagn annarsstaðar frá til Grindavíkur. „Við erum búin að slétta plön, fá leyfi, klára tengingar og fá vélarnar. Eftir því sem þörf krefur eru til nógu margar vélar sem geta dekkað þessa almennu rafmagnsnotkun í Grindavík, sem snýr þá að heimilum og almennum fyrirtækjum og stofnunum. Stórir notendur þurfa að nýta sínar eigin varavélar og vera með sinn viðbúnað og eru upplýst um það, enda verður alltaf takmarkað sem hægt er að koma inn á kerfið af rafmagni á svona tímum.
Varðandi önnur svæði, því kerfið okkar er þannig upp byggt að það er annars vegar Grindavík og hins vegar Fitjar í Reykjanesbæ, þá erum við betur sett hvað varðar flutningskerfi rafmagns og erum tengd í raun frá þremur stöðum. Frá Svartsengi, Reykjanesvirkjun og ekki síst Suðurnesjalínu. Þó að Svartsengi færi út þá erum við að fá rafmagn frá öðrum leiðum.
Ef að til svo mikils rafmagnsleysis kemur og ef hitaveitan er farin út, þá þurfum við að átta okkur á því að fólk reynir jafnvel að hita húsin sín með rafmagnsofnum. Við erum búnir að greina hvað kerfið okkar þolir, því að á hitaveitusvæðum eru rafdreifikerfin ekki byggð til að þola rafhitun, heldur aðra almenna notkun.
Það er með öruggum hætti hægt að setja tvö til þrjú kílóvött inn á hvern mæli. Það þýðir að í því ástandi er rafmagnskerfið viðkvæmt og mikið álag á því. Þá mun reyna á fólk og samstöðu þess,“ segir Páll
Páll sagði rétt að minna á að það er mikilvægt að vera með hlaðna síma og önnur tæki sem við treystum á dagsdaglega..
„Með tilkomu rafmagnsbíla er rétt að muna að það er ráðlagt fyrir fólk að hafa þá hlaðna á öllum tímum því það verður ekki hægt að hlaða þá ef kemur til svona neyðarástands.“
HS Veitur eru búnar að staðsetja og greina varavatnsból bæði fyrir Grindavík í samstarfi við sveitarfélagið og líka fyrir hin þéttbýlissvæðin, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Sveitarfélagið Voga. Þar er nú þegar í gangi undirbúningur sem miðar að því að geta tengt kalt vatn og afhent það í hús þó að í takmarkaðra mæli verði heldur en nú er. Í öllum tilfellum er verið að tala um takmarkaða afhendingu, ef einhverja, til stórra notanda og iðnaðar.
„Heita vatnið er það sem við köllum stærsta sviðsmyndin, því við erum að fara inn í vetur og það að sé hiti á húsum hefur með það að gera hvort þau séu íbúðarhæf. Það eru rúmlega 30.000 íbúar á svæðinu sem að treysta á hitaveituna. Þessi sviðsmynd sem við erum að horfa til sem er sú svartasta, hún er mjög erfið hvað það varðar. Það getur farið svo að það reyni ekkert á hitaveituna þó svo það komi eldgos. Það getur líka verið þannig að hitaveitan detti út að hluta eða einhverjar lagnir og þá erum við með viðbragðsáætlanir til að grípa þar inn í,“ segir Páll og bætir við:
„Ef að svo færi að svartasta sviðsmyndin raungerðist og afhending heits vatns frá Svartsengi myndi með öllu hætta, þá er það mjög stórt viðfangsefni sem við höfum nú tekið höndum saman um, HS Veitur og HS Orka, og teiknað til enda með aðstoð verkfræðistofunnar Verkís og fundið hvers konar búnað væri hægt að setja sem neyðarkyndistöðvar á svæðinu, hversu mikið afl þyrfti og hvar þær ættu að vera staðsettar, hvar sé hægt að finna vatn fyrir þær og rafmagn fyrir stýribúnaðinn. Þetta liggur núna allt fyrir og við höfum skilað þessum upplýsingum til yfirvalda vegna þess að það er þannig að ef það eru komnar svona miklar náttúruhamfarir og neyðarástand, þá er þetta komið út úr höndum einstakra fyrirtækja að leysa svona mál. Við væntum góðrar yfirferðar sem ég veit að er í gangi í öllu stjórnkerfinu í dag hvað þetta mál varðar,“ sagði Páll Erland, forstjóri frá HS Veitum.
Hann sagði að farið verði nánar yfir málin á opnum íbúafundi í Reykjanesbæ á miðvikudaginn.