Telur álsamning ekki standast EES-samning
Bergur Sigurðsson, frambjóðandi VG í Suðurkjördæmi og fyrrum framkvæmdastjóri Landverndar, telur að fjárfestingarsamningur ríkisins við Century Aluminium og Norðurál vegna álvers í Helguvík kunni að brjóta í bága við ákvæði EES-samningsins um ríkisstyrki. Hann hvetur iðnaðarnefnd til að bíða með að afgreiða hann.
„Það er fljótheitabragur á verklagi nefndarinnar ef þessi samningur rennur bara í gegnum nefndina án þess að svar ESA, um hvort þessi styrkveiting standist EES-samninginn, liggi fyrir," segir Bergur í samtali við Fréttablaðið og visi.is sem greina frá þessu.
Staðfest er að ESA er að fara yfir samninginn og muni skila áliti eftir sex til sjö vikur. Þangað til ræðir ESA hann ekki í fjölmiðlum.
Málið kom til umræðu á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ. Á bæjarfulltrúum mátti heyra að staðfestingar á samningnum er beðið með óþreyju og vænst sé stuðnings ríkisvaldsins enda sé Helguvíkurverkefnið brýnt fyrir Suðurnesin, sem eru með hlutfallslega mesta atvinnuleysið á landinu.
Sjá frétt á visir.is