Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Telja sig hafa verið ódýrt vinnuafl
Fimmtudagur 14. janúar 2016 kl. 11:45

Telja sig hafa verið ódýrt vinnuafl

- Björgunarsveitin Skyggnir í Vogum sleit samstarfi við sveitarfélagið

„Við viljum gefa vinnu okkar í almannaþágu en ekki vera ódýrt vinnuafl sveitarfélagsins. Það skýtur skökku við að sveitarfélagið styrki ekki björgunarsveitina nema hún vinni fyrir hverri krónu í láglaunavinnu,“ segir Kristinn Björgvinsson, formaður björgunarsveitarinnar Skyggnis í Vogum. Á dögunum sleit sveitin samstarfssamningi sínum við sveitarfélagið Voga. Samningurinn hafði verið í gildi undanfarin ár og kvað meðal annars á um að sveitarfélagið myndi greiða 1.200.000 krónur á ári til björgunarsveitarinnar fyrir ýmis störf, svo sem á bæjarhátíðum og fyrir umsjón með brennum og flugeldasýningum. Að mati björgunarsveitarmanna var vinnan of mikil miðað við greiðslu bæjarfélagsins og mun sveitin nú leita annarra leiða til fjáröflunar.
 
„Þetta er sett upp sem styrkur til okkar en er í rauninni mjög lágt tímakaup. Við sjáum um brennu á áramótum, setjum hana upp og berum ábyrgð á henni, kveikjum í og vöktum fram yfir miðnætti. Þetta er allt á stórhátíðardegi,“ segir Kristinn. Virkir félagar í björgunarsveitinni eru á bilinu 12 til 14 og segir Kristinn þau einnig hafa séð um gæslu á Fjölskyldudögum Voga sem er þriggja daga hátíð. „Þá erum við með brennu á föstudegi, bryggjudag og dorgveiðikeppni á sunnudegi, auk þess að sjá um sjúkragæslu alla hátíðina. Samkvæmt samningnum skuldbundum við okkur til að vera til taks á öllum hátíðum á vegum bæjarins.“
 
Í fundargerð bæjarráðs Voga frá 2. desember síðastliðnum segir að það harmi að ekki skuli nást samningar og þakkar björgunarsveitinni fyrir samstarfið á liðnum árum. Að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum, er það hið versta mál að samningar hafi ekki tekist. „Á síðasta ári voru styrkir til allra félaga í sveitarfélaginu lækkaðir vegna aðhalds í rekstri, nema til björgunarsveitarinnar. Mér sýnist að hér í Vogum hafi stuðningur við sveitina ekki verið lakari en til dæmis í Sandgerði og Garði.“ Hann segir að í svo litlu samfélagi sem Vogum sé það brýnt verkefni að sveitarfélagið eigi í góðu samstarfi við félagasamtök. „Það verður bara að segja það eins og það er að mönnum finnst það ómaklegt af björgunarsveitinni að hafna áframhaldandi samstarfi.“ 
 
Árlega hefur sveitarfélagið keypt flugelda fyrir 800.000 krónur og hefur björgunarsveitin séð um flugeldasýningar á Fjölskyldudögum og á þrettándanum. Að sögn Kristins voru flugeldarnir seldir á kostnaðarverði, ásamt því efni sem þarf til að koma þeim í loftið. Sú ákvörðun var tekin að slíta samningnum þegar bæjaryfirvöld buðu björgunarsveitinni að fá þær 400.000 krónur sem annars myndu fara í flugeldakaup fyrir þrettándann í styrk. „Ef sýningunni hefði verið sleppt hefði skuldinni verið skellt á okkur og það vildum við alls ekki og ákváðum að slíta viðræðunum,“ segir Kristinn. Bæjarstjórinn segir að í því tilviki hafi sveitarfélagið viljað breyta áherslum sínum. „Okkur fannst peningunum betur varið með því að styrkja björgunarsveitina en að fjárfesta í flugeldum,“ segir Ásgeir.
 
Inni í styrknum voru fasteignagjöld vegna húsnæðis björgunarsveitarinnar og segir Kristinn standa til að sækja um niðurfellingu á þeim, þrátt fyrir að samstarfssamningurinn sé ekki í gildi. „Húsnæðið okkar lýtur að almannavarnaskipulagi og við erum með bjargir í húsinu ef til almannavár kemur. Við erum sjálfboðaliðar og rekum húsnæði, tvær bifreiðar, vararafstöðvar og fleira. Starfið okkar er nauðsynlegt fyrir fólkið í sveitarfélaginu og því er leitt að það sé ekki tekið með í myndina heldur aðeins hvernig við getum unnið önnur störf fyrir bæjarfélagið.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024