Telja lagalega óvissu um forkaupsrétt á Óla á Stað
Í fundargerð bæjarráðs Grindavíkur frá síðasta miðvikudegi kemur fram að það harmi framgöngu málsaðila í söluferli á línubátnum Óla á Stað GK-99. Báturinn var í gær var afhentur nýjum eigendum á Fáskrúðsfirði, Hjálmari ehf., dótturfélagi Loðnuvinnslunnar. Báturinn var áður í eigu Stakkavíkur ehf. Fyrirtækið seldi hann því það var fyrir ofan kvótaþak í krókamarkskerfinu. Óla á Stað fylgir rúmlega 1.000 tonna kvóti, þar af um 800 tonn af þorski.
Bæjaryfirvöld í Grindavík óskuðu þann 26. janúar síðastliðinn eftir fjögurra vikna fresti til að taka afstöðu til forkaupsréttar á bátnum.
Eftirfarandi er bókun bæjarráðs Grindavíkur frá miðvikudeginum 3. febrúar síðastliðnum um sölu Stakkavíkur á Óla á Stað til Hjálmars ehf.:
Kaupsamningur milli Stakkavíkur ehf. sem seljanda og Hjálmars ehf. og Loðnuvinnslunnar hf. sem kaupenda dags. 26. janúar 2016, um bátinn Óla á Stað og tilgreindar aflaheimildir, lagður fram.
Stakkavík ehf. bauð Grindavíkurbæ forkaupsrétt á bátnum og aflaheimildum þann 1. desember 2015. Þann 14. desember 2015 tilkynnir Stakkavík að tilboðið hafi verið afturkallað þar sem fyrirvara stjórnar Loðnuvinnslunnar hafði ekki verið aflétt. Í ljósi þess frestaði bæjarstjórn Grindavíkur afgreiðslu málsins á fundi sínum 15. desember 2015. Þann 16. desember tilkynnir stjórn Loðnuvinnslunnar hf. að fyrirvari um samþykki stjórnar væri aflétt. Hinn 15. janúar 2016 tilkynnir lögmaður Loðnuvinnslunnar að það sé skilningur fyrirtækisins að fjögurra vikna forkaupsréttartími sé liðinn.
Grindavíkurbæ hefur ekki borist tilkynning um að Stakkavík telji sölutilboðið gilt að nýju og var í góðri trú um að ekkert samkomulag væri milli aðila um kaup á bátnum og aflaheimildum. Þann 27. janúar fékk Grindavíkurbær vitneskju um að aðilar væru að ganga frá kaupsamningi vegna viðskiptanna, og fékk það staðfest á fundi með lögmönnum Loðnuvinnslunnar og Stakkavíkur þann 1. febrúar síðastliðinn.
Bæjarráð harmar framgöngu málsaðila í ferlinu. Bæjarstjórn Grindavíkur hefur aldrei fjallað efnislega um málið, í ljósi þess að sölutilboðið var afturkallað 14. desember. Nú er staðan sú að lagaleg óvissa er um hvort forkaupsrétturinn sé enn fyrir hendi og inngrip sveitarfélagsins gæti því haft í för með sér óvissu og tjón fyrir aðila málsins.