Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Telja eldgos ekki í uppsiglingu en ástæða að vakta svæðið vel
Þriðjudagur 30. nóvember 2010 kl. 16:04

Telja eldgos ekki í uppsiglingu en ástæða að vakta svæðið vel

Jarðvísindamenn fylgjast nú grannt með skjálftahrinum og landrisi við Krýsuvík og hafa upplýst almannavarnir um þróun mála. Aukinn þrýsingur í jarðskorpunni þar undir er talinn geta stafað annaðhvort af kvikuinnstreymi eða breytingum í jarðhitakerfum. Frá þessu var greint á Vísi.is í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jarðskjálftahrina með um 40 smáskjálftum varð í Krýsuvík í nótt en skjálftahrinur hófust á ný á svæðinu í haust eftir rólegan tíma fyrr á árinu. Jarðvísindamenn upplýstu almannavarnir í fyrra um óvenju mikið landris á litlu svæði suðvestan Kleifarvatns, en þá reis land þar um þrjá sentímetra.

Landrisið var rakið til þrýstingsaukningar í jarðskorpunni á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi, að sögn Freysteins Sigmundssonar jarðeðlisfræðings. Þessi aukni þrýsingur var talinn stafa annaðhvort af kvikuinnstreymi eða breytingum í jarðhitakerfum.

Landrisið gekk til baka í fyrravetur og á fyrri hluta þessa árs en hófst svo að nýju í vor. Sigrún Hreinsdóttir jarðeðlisfræðingur segir við Vísi.is að ákveðið hafi verið að vakta svæðið betur og í því skyni hafi tveimur nýjum GPS-mælum verið komið upp fyrr á þessu ári.

Skjálftahrinurnar nú í haust komu vísindamönnum ekki á óvart og höfðu þeir nokkru áður látið almannavarnir vita að búast mætti við hræringum á svæðinu. Vísindamenn eru þó ekki vissir um hvað þarna er að gerast en hallast helst að því að landrisið megi skýra með breytingum í jarðhitakerfinu, sem hugsanlega tengist kvikuhreyfingum. Ekki er talið að eldgos sé í uppsiglingu en ástæða er talin til að vakta svæðið vel.

Ljósmynd: Ellert Grétarsson