Tekjur af útsvari og framlög Jöfnunarsjóðs lægri
Tekjur af útsvari og framlög Jöfnunarsjóðs verða lægri á þessu ári en áætlanir gerðu ráð fyrir í Sveitarfélaginu Garði. Þetta kom fram á síðasta fundi bæjarráðs Garðs.
Karitas S Gunnarsdóttir aðalbókari sveitarfélagsins fór yfir rekstrartölur fyrir tímabilið janúar-september 2013 á fundi bæjarráðsins. Í yfirlitinu kemur m.a. fram að rekstrarliðir eru flestir í samræmi við fjárhagsáætlun, en í nokkrum málaflokkum eru frávik sem verða skoðuð nánar.
Bæjarstjóri og aðalbókari lögðu til að lagt verði að forstöðumönnum að draga úr innkaupum og öðrum útgjöldum eins og kostur er út árið. Bæjarráð tók undir þetta og fól bæjarstjóra í samstarfi við forstöðumenn að draga úr útgjöldum svo sem kostur er út árið.