Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tekjur 200 milljónum yfir áætlun og starfsmenn fá sumargjöf
Miðvikudagur 5. júní 2013 kl. 18:00

Tekjur 200 milljónum yfir áætlun og starfsmenn fá sumargjöf

Ársreikningur Grindavíkurbæjar og stofnana hans fyrir árið 2012 hefur nú verið tekinn til seinni umræðu og staðfestur af bæjarstjórn. Eins og fram kom við fyrri umræðu var mjög góður afgangur af rekstri bæjarins á árinu.
Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, var 230,4 milljónir króna í rekstrarafgang en áætlun gerði ráð fyrir 58,6 milljónum króna í rekstrarafgang. Munar þar mestu um að rekstrartekjur eru 208,1 milljón yfir áætlun. Niðurstaðan er mikil breyting frá árinu áður, en þá var rúmlega 100 milljóna kr. halli á rekstri bæjarsjóðs Grindavíkur og fyrirtækja hans (A og B hluta).

Breytinguna má rekja til þeirra aðgerða sem bæjarstjórn greip til á árunum 2010-2012 í framhaldi af markmiðssetningu sem samþykkt var í nóvember 2010. Sú stefnumótun gerði ráð fyrir að rekstur bæjarsjóðs yrði kominn í jafnvægi á árinu 2013. Þau markmið eru að nást einu ári fyrr, ekki síst vegna þess að tekjur eru að aukast hraðar en áætlað var. Tekjuaukningu má rekja til breytinga á gjaldskrám, fjölgunar íbúa, minnkandi atvinnuleysis og aukinna umsvifa í Grindavík. Árið 2012 var gott bæði í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, sem eru undirstöður atvinnulífs í bænum.

Frá árinu 2010 hafa reglulegar tekjur bæjarsjóðs og stofnanna hans hækkað um 25%, en útgjöld fyrir fjármagnsliði lækkað um tæpt 1%. Samkvæmt þriggja ára rammaáætlun Grindavíkurbæjar er gert ráð fyrir áframhaldandi góðum afgangi af rekstri Grindavíkurbæjar og stofnana hans. Á næstu misserum er ráðgert að hefja mikla uppbyggingu við íþróttamannvirki, bókasafn og tónlistarskóla og nauðsynlegt að bæjarsjóður skili afgangi til að hægt sé að fjármagna þær framkvæmdir án lántöku og í kjölfarið reka mannvirkin. Bæjarsjóður skuldar mjög lítið og afborganir lána eru lágar.

Grindavíkurbær uppfyllir nú bæði skilyrði svokallaðrar jafnvægisreglu og skuldareglu í fjármálakafla nýrra sveitarstjórnarlaga. Grindavíkurbær hefur því allar forsendur til að vera eitt best setta sveitarfélag landsins ef fram heldur sem horfir.

Bæjarstjórn gengur sem fyrr samstillt til verks og þakkar starfsmönnum bæjarins fyrir vel unnin störf undanfarin misseri við að bæta rekstur Grindavíkurbæjar, segir í bókun B, G og S-lista við umræður í bæjarstjórn Grindavíkur. Ársreikningur bæjarins hefur jafnframt verið samþykktur samhljóða.

Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur lagði fram tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem lagt er til að starfsmönnum Grindavíkurbæjar verði umbunað fyrir góðan árangur í rekstri bæjarins á árinu 2012 með sérstakri sumargjöf. Það var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024