Tekist á um verkefnastjóra Sandgerðisdaga
Í Sandgerði er tekist á um verkefnastjóra Sandgerðisdaga sem verða haldnir síðar í haust. Bæjarfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks bókuðu um ráðningu verkefnastjóra á bæjarstjórnarfundi í byrjun mánaðarins.
„Bæjarfulltrúar B- og D- lista lýsa yfir óánægju sinni með ráðningu í stöðu verkefnisstjóra Sandgerðisdaga. Með þessu er ekki verið að kasta rýrð á Bergnýju Jónu Sævarsdóttur sem ráðin var í starfið en bent á atvinnuástand bæjarfélagsins. Það er skoðun bæjarfulltrúa B- og D- lista að kanna hefði átt með áhuga meðal heimamanna á verkefninu enda hefur Sandgerðisbær á að skipa bæði hugmynda- og hæfileikaríku fólki.
Bæjarfulltrúar B- og D- lista óska eftir upplýsingum um laun og kostnað vegna stöðu verkefnisstjóra Sandgerðisdaga.
Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, sign.
Guðmundur Skúlason, sign.“
Bæjarfulltrúar S-listans boðuðu á síðasta bæjarstjórnarfundi og bókuninni yrði svarað á næsta fundi bæjarráðs sem nú hefur átt sér stað. Þar segir:
„Vegna bókunar bæjarfulltrúa B- og D-lista á 296. fundi bæjarstjórnar 07.07.2010 um ráðningu í stöðu verkefnisstjóra Sandgerðisdaga vilja bæjarfulltrúar S-listans koma eftirfarandi á framfæri:
Á síðasta fundi þess bæjarráðs sem starfaði á síðasta kjörtímabili var samþykkt samhljóða tillaga um að Bergný Jóna Sævarsdóttir yrði ráðinn verkefnastjóri Sandgerðisdaga 2010. Þegar þessi ákvörðun var tekin var tími til undirbúnings orðinn naumur og nauðsynlegt að finna aðila sem hafði þekkingu á verkefninu.
Með því að fá Bergnýju til verksins var tryggt að undirbúningur og skipulag Sandgerðisdaga verður í öruggum og reyndum höndum þrátt fyrir það rót sem fylgir sveitastjórnarkosningum. Rétt er að benda á að verkefnisstjóri Sandgerðisdaga 2009 hafði lýst því yfir að hún sæktist ekki eftir því að taka verkefnið að sér. Það lá því beint við að leita til Bergnýjar enda hafa Sandgerðisdagar verið framkvæmdir samkvæmt hennar forskrift undanfarin þrjú ár eða síðan 2007. Rétt er að benda á að önnur sveitarfélög hafa sóst eftir að komast yfir upplýsingar um framkvæmd Sandgerðisdaga, einkum er varðar forvarnir.
Það er því ljóst að í ljósi aðstæðna var lán að hægt var að fá Bergnýju til verksins því fáir, ef nokkur hafa betri þekkingu á því.
Ólafur Þ. Ólafsson, sign.
Sigursveinn B. Jónsson, sign.“