Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tekist á um tölur í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 3. maí 2006 kl. 16:22

Tekist á um tölur í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar

Það tæki íbúa í Hafnarfirði tæp 14 ár að greiða sínar skuldir á meðan það tæki íbúa í Reykjanesbæ 27 ár að greiða sínar skuldir, miðað við skuldastöðu á hvern íbúa í þessum tveimur sveitarfélögum, segir í bókun sem Jóhann Geirdal (S) lagði fram á bæjarstjórnarfundi í gær, þegar fram fór seinni umræða um 3ja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar.

Jóhann setur út á þann samanburð sem fram kom í bókun Árna Sigfússonar (D) á bæjarstjórnarfundi á dögunum þar sem bornar eru saman skuldir á hvern íbúa í fjórum sveitarfélögum. Þar segir að
heildarskuldir á hvern íbúa í Reykjanesbæ hafi verið 740 þúsund á síðasta ári þegar þær voru 950 þúsund á hvern íbúa í Hafnarfirði, 850 þúsund á Akureyri og yfir ein milljón í Reykjavík.
Jóhann er ósammála þessum tölum og segir að skuldir á hvern íbúa í Hafnarfirði séu 682 þúsund en ekki 950 þúsund, skv. sínum niðurstöðum við skoðun á ársreikningi Hafnarfjarðar.

„Þessi tala ein og sér segir hins vegar lítið um stöðu þessara sveitarfélaga því eins og flestir gera sér grein fyrir skiptir jafnframt máli hver greiðslugetan er.
Skv. sömu endurskoðuðum reikningum var rekstrarniðurstaða A og B hluta ársins 2005 kr. 30.000 á íbúa í Reykjanesbæ en kr. 50.000 á hvern íbúa í Hafnarfirði.
Séu þessar tölur skoðaðar saman kemur í ljós að það tæki íbúann í Hafnarfirði tæp 14 ár að borga sínar skuldir á meðan það tæki íbúa í Reykjanesbæ tæp 27 ár að greiða sínar skuldir.
Það þarf því mikinn sannfæringarkraft til að sannfæra mig um að fjárhagsstaða Reykjanesbæjar sé góð í þessum samanburði“, segir í bókun Jóhanns.

Fjárhagsáætlunin var samþykkt með 6 atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn sat hjá.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024