Tekist á um hafnarstarfsmenn
Bæjarstjórn Sandgerðis felldi tillögu atvinnu- og hafnarráðs um að ráða verkstjóra til Sandgerðishafnar með 5 atkvæðum gegn 2. Bæjarfulltrúar S-listans töldu rétt að fella þessa tillögu þar sem svipuð, en nákvæmari tillaga hafði verið lögð fram og vildu frekar samþykkja hana.
„Ef umræddar tillögur ná fram að ganga er ljóst að tveir starfsmenn hafnarinnar lækka verulega í launum og nemur sú lækkun á milli 30 og 40%.
Fram hefur komið mikil óánægja meðal sumra starfsmanna með þessa breytingu og einnig við vinnslu þessarar skýrslu. Þeir töldu að um trúnaðarbrest væri að ræða vegna fundar sem þeir sátu með formanni atvinnu- og hafnarráðs og bæjarstjóra.
Á þeim fundi svöruðu starfsmenn spurningum sameiginlega um málefni hafnarinnar og starfsumhverfi, þar sem fram kom að svör þeirra færu einungis í vinnuskjal vegna verkefnavinnu en yrðu ekki gerð opinber.
Hætta er á að nýtt vaktafyrirkomulag geti komið til með að skerða þjónustu ef lokað verður klukkan 21:00 virka daga. Óljóst er hvaða afleiðingar það hefur fyrir höfnina að skerða þjónustu við svo mikilvæga starfsemi en hagur hafnarinnar hefur batnað verulega á síðustu tveim árum. Þeirri afkomu gæti verið ógnað ef fram er farið með tillögur sem ganga fram án vilja og samráðs við starfsmenn og þjónustukaupa hafnarinnar.
Fram kemur í skýrslu atvinnu- og hafnarráðs að ekki sé fyrirséð að þetta vaktafyrirkomulag hafi í för með sér sparnað og töldu þeir fullyrðinguna óskiljanlega vegna lækkun laun hjá starfsmönnum.“ segir í bókun frá fulltrúum B- og D-lista.
Einnig kvörtuðu fulltrúar B- og D-lista yfir framkomu formanns atvinnu- og hafnarráðs.
Vegna bókunar B- og D-lista vildu bæjarfulltrúar S- listans að eftirfarandi kæmi fram.
„Með fram lögðum tillögum næst að verða við háværum kröfum um verkstjórn og ábyrgð á daglegum störfum á Sandgerðishöfn án verulegs kostnaðarauka. Sú tillaga sem fulltrúar B- og D- lista studdu hér fyrr á fundinum hefði hins vegar þýtt verulegan kostnaðarauka.
Fullyrðingar um trúnaðarbrest fá ekki staðist þar sem umrædd gögn eru einungis vinnugögn og hafa ekki verið gerð opinber. Þá er rangt að segja að tillögurnar hafi verið unnar án samráðs við starfsmenn.
Með breytingum á þjónustu við Sandgerðishöfn er verið að ná fram markvissari og hagkvæmari vinnubrögðum. Við hörmum að fulltrúar B- og D- lista sjái sig knúna til að kalla "Úlfur, úlfur" við slíkar breytingar. Að sjálfsögðu verður viðskiptamönnum Sandgerðishafnar tilkynnt um breytingar á þjónustu með viðunandi hætti.
Fullyrðingar um framúrkeyrslu eru ótímabærar þar sem sá þáttur er enn óafgreiddur.
Fulltrúar S- listans benda á að öll vinnubrögð hjá atvinnu- og hafnarráði hafa verið í samræmi við gildandi lög og samþykktir. Ef nefndarmenn telja að sér vegið er rétt að þeir bóki athugasemdir sínar í fundargerðir sinna ráða,“ segir í svari meirihlutans.
Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar sagði í viðtali við 245.is að tillagan sem þeir samþykktu gerði ráð fyrir óbreyttum starfsmannafjölda við höfnina. „Tillagan gerir ráð fyrir möguleikum á breytilegu vaktavinnufyrirkomulagi þar sem tekið er meira tillit til þjónustuþarfa og álagstíma en núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir,“ sagði Ólafur Þór. Einnig tók hann fram að samkvæmt tillögunni verður bakvaktakerfi starfsmanna afnumið nema að hluta til um helgar og þá verða helgarvaktir felldar inn í vaktarkerfið sem ekki hefur verið með þeim hætti. Þá sagði Ólafur að þegar tillögur ráðsins taki gildi verði þær kynntar vel fyrir öllum hlutaðeigandi aðilum.