Tekist á um fasteignaskatta
,,Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að vegna hækkunar á fasteignamati í Reykjanesbæ um 26% á íbúahúsnæði og 13% á atvinnuhúsnæði, að komið verði til móts við bæjarbúa og fyrirtæki, þannig að fasteignaskattar verði lækkaðir svo að eðlileg breyting á sköttum verði á milli ára,‘‘ segir í bókun Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ á fundi bæjarráðs 11. ágúst.
Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Umbótar, tók undir bókun Sjálfstæðisflokksins.
Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun:
,,Fyrirséð er að fasteignaskattar fyrir árið 2023 munu hækka vegna hækkun fasteignamats. Fyrir stofn A sem er íbúðahúsnæði bæjarins er fyrirhuguð hækkun 26,52%. Fyrir stofn C sem er fyrirtækjahúsnæði er fyrirhuguð hækkun 13,42%.
Þessi hækkun er mikil og er ljóst að heimili og fyrirtæki í Reykjanesbæ munu finna fyrir hækkuninni. Meirihluti bæjarráðs mun því, í takt við fyrri ár, taka umræddar hækkanir sérstaklega fyrir í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2023. Horft verður til ýmsa sviðsmynda til mögulegrar lækkunar í þeirri vinnu með hag íbúa að leiðarljósi.‘‘