Tekist á um auðlindamál í bæjarráði
Tekist var á í bæjarráði Reykjanesbæjar fyrir helgi um tilboð bæjarins í kaup á landi HS utan Járngerðarstaða og Hópstorfu ásamt samningi um hagnýtingu náttúruauðlinda.
Fulltrúar A-listans lögðu fram tillögu þess efnis að bæjarstjóra yrði falið að leita eftir vilja ríkisvaldsins til að eignast þau landsvæði sem væru í eigu HS orku og þar með stuðla að því að náttúruauðlindir sem kynnu að finnast á viðkomandi landsvæðum yrðu eign þjóðarinnar. Tillagan var felld með atkvæðum meirihlutans.
„Það er ekki vilji meirihluta Reykjanesbæjar að ríkið eignist meira land á svæði sveitarfélaganna, enda engar upplýsingar um að ríkið hafi áhuga á því. Hins vegar mætti vel ræða við ríkið í framhaldinu hvort vilji sé til að ríkið eignist auðlindarréttinn á umræddum landssvæðum.
Með tilboði um kaup Reykjanesbæjar á landi HS hf. er verið að tryggja að land og auðlindir séu að öllu leyti í eigu sveitarfélaganna. Þannig er stuðlað að sátt um eign auðlindarinnar,“ segir í bókun sem meirihlutinn lagði fram.
Fulltrúar A listans lögðu þá fram aðra tillögu í þá veru að bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að leita eftir vilja sveitarfélaga á Suðurnesjum til að eignast sameiginlega þau landsvæði sem eru í eigu HS-orku „og þar með stuðla að því að náttúruauðlindir sem finnast á viðkomandi landsvæðum verði í samfélagslegri eign,“ eins og segir í tillögunni. Hún var felld með atvæðum meirihlutans eins og sú fyrri.
Í annarri bókun meirihlutans kom fram að í viðræðum við forsvarsmenn sveitarfélaganna Voga og Grindavíkur hefði komið fram áhugi á að kaupa það land sem nú væri í eigu HS og lægi á skipulagssvæði viðkomandi sveitarfélaga. Reykjanesbær muni fagna því ef svo gæti orðið.
Bæjarráð samþykkti með atvæðum meirihlutans að leggja fram fyrirliggjandi tilboð til HS orku í land og auðlindina.
Minnihlutinn sat hjá við atkvæðagreiðsluna og lagði fram bókun þar sem hann lýsir sig sammála þeirri meginhugsun að náttúruauðlindir verði í samfélagslegri eigu en hefði viljað sjá aðrar útfærslur með vísan í ofangreindar tillögur.