Tekist á um ankeri í Grófinni
Kafarar frá Björgunarsveitinni Sigurvon, undir forystu Sigurðar Stefánssonar kafara, komu í gær með að landi ankeri sem legið hefur á hafsbotni í Grófinni í Keflavík í áratugi. Naut björgunarsveitin aðstoðar Árna Kópssonar kafara við að koma ankerinu á land með öflugum krana. Ekki eru allir á eitt sáttir við þessa aðgerð Björgunarsveitarinnar Sigurvonar. Tómas Knútsson, sportkafari og talsmaður Bláa hersins, segir að þarna sé verið að seilast inn á verksvið og fjáröflun Bláa hersins með lágkúrulegum hætti.
Ankerið var híft á land um miðjan dag í gær, eftir að kafarar Björgunarsveitarinnar höfðu sótt það út í Grófina, þar sem það hefur legið á hafsbotni í áratugi. Sigurður Stefánsson, kafari, taldi að þarna væri um að ræða gamalt skútuankeri, sem nú verði hreinsað upp og því síðan komið til varðveislu.
Þegar Sigurður og hans menn hjá Björgunarsveitinni Sigurvon voru að koma ankerinu á land kom hins vegar lögreglan á vettvang og hafði tal af Sigurði. Sigurður tjáði lögreglunni að hann hefði leyfi hafnarstjóra Reykjanesbæjar til að sækja ankerið í hafið og það væri því ekki gert í óþökk hafnarinnar.
Tómas Knútsson, sem fer fyrir Bláa hernum, sem hefur látið mikið til sín taka í umhverfismálum, segir hins vegar Bláa herinn hafa leyfi til þess að höndla með þau ankeri sem liggja á hafsbotni í Grófinni og á Keflavíkinni. Blái herinn hafi í gegnum tíðina kafað mikið á þessum slóðum og skoðað og merkt fjölda ankera. Þá hafi Blái herinn selt fjölda ankera til að fjármagna starfsemi sína, við hreinsun hafins og strandarinnar. Tómas segir því augljóst mál að þeir aðilar sem stóðu að þessari uppákomu í gær [Björgunarsveitin Sigurvon] séu að seilast inn á verksvið Bláa hersins með lágkúrulegum hætti. Blái herinn hafi á sínum tíma fengið leyfi til að eiga þessi ankeri og gera sér mat úr þeim, sem Blái herinn hafi gert.
Tómas segir þó bót í máli að ankerið sem kom á landi í gær hafi litla sögulega merkingu. Í fyrsta lagið sé það brotið og það sé í raun rusl frá Dráttarbraut Keflavíkur þegar hún var og hét, en sé ekki eitt af ankerunum sem voru notaðar á bátalegunni undan Keflavík snemma á síðustu öld.
VF-myndir/Hilmar Bragi
Efsta myndin: Tómas og Sigurður skiptast á skoðunum. Mynd 2: Árni Kópsson hífir ankerið á land. Tómas festir atburðinn á myndband. Mynd 3: Lögregla hefur tal af Sigurði.