Tekinn með fíkniefni, lyf og kindabyssu
Umtalsvert magn af fíkniefnum og lyfseðilsskyldum lyfjum fannst við húsleit sem lögreglan á Suðurnesjum fór í, að fenginni heimild, í íbúðarhúsnæði um helgina. Um var að ræða hvítt fíkniefni, meintar e – töflur, metamfetamín svo og sterk verkjalyf. Einnig fannst kindabyssa á staðnum ásamt skotfærum. Jafnframt fjármunir sem grunur leikur á að séu ágóði af fíkniefnasölu.
Húsráðandi játaði fyrir lögreglumönnum á vettvangi að stunda fíkniefnasölu en neitaði að tjá sig um flest atriði sakarefnisins við skýrslutöku á lögreglustöð.
Þá fundust fíkniefni, sterar og hnúajárn við húsleit sem lögregla fór í um helgina, að fenginni heimild. Húsráðandi var handtekinn vegna vörslu á fíkniefnum, brots á lyfjalögum og vopnalögum. Hann játaði brot sín og var látinn laus að lokinni skýrslutöku á lögreglustöð.
Enn fremur kom borgari á lögreglustöð um helgina með fíkniefni í poka sem hann fann í innkeyrslunni heima hjá sér.