Tekinn með 14 þúsund E-töflur -söluverðmæti 50 milljónir króna
Lögreglan á Keflavíkuflugvelli stöðvaði hollenskan mann á transit-svæðinu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðdegis í gær. Við leit á manninum fundust innan klæða rúmar fjórtán þúsund E-töflur. Þetta er almesta magn af E-töflum sem lagt hefur verið hald á á Íslandi og væri söluverðmæti þeirra hérlendis nálægt 50 milljónum króna, enda um að ræða a.m.k. 30 þúsund neysluskammta.Maðurinn var nýlega kominn frá Amsterdam og var á leið áfram til New York. Ástæða þótti til að kanna ferðaskilríki mannsins og tilgang ferðar hans. Við yfirheyrslur sagðist maðurinn hafa ætlað að flytja töflurnar til New York, en ekkert bendir til að ætlun hans hafi verið að koma töflunum hér inn í landið. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli fer með rannsókn málsins og verður maðurinn leiddur fyrir dómara síðdegis í dag, þar sem farið verður fram á gæsluvarðhald yfir honum á meðan tekin verður ákvörðun um framhald málsins. Ríkissaksóknari ákveður hvort höfðað verður mál á hendur manninum hér á landi.Þess má geta að skammt er síðan tollgæslan á Keflavíkurflugvelli lagði hald á 5 þúsund E-töflur sem Íslendingur reyndi að smygla til landsins.