Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tekin með ólögleg skilríki
Miðvikudagur 18. maí 2005 kl. 18:03

Tekin með ólögleg skilríki

Lögreglan á Keflavíkurflugvelli stöðvuðu ásamt tollgæslunni, fimm aðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðdegis í gær en talið er að þau hafi ætlað að komast ólöglega til Bandaríkjanna. Voru þetta 4 ungmenni ásamt meintum fylgdarmanni á fimmtugsaldri. Eru þau öll í haldi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Ungmennin eru þrjár konur og einn karlmaður en erfitt er þó að segja til um aldur þeirra.

Vegabréfin sem ungmennin höfðu meðferðis voru ekki þeirra eigin heldur notuðust þau við vegabréf með ljósmyndum af fólki sem líktist þeim en vegabréfin eru frá Singapúr. Fylgdarmaðurinn er talinn hafa ætlað að aðstoða þau við að komast ólöglega til Bandaríkjanna.
„Þegar svona mál koma upp þá þarf samstarf ýmissa lögregluyfirvalda svo sem Scotland Yard og Interpol,“ sagði Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður, í samtali við Víkurfréttir, en málið er í rannsókn.

Lögreglan á Keflavíkurflugvelli hefur haft grun um að leiðin frá London til Orlando með millilendingu á Íslandi sé notuð undir ýmis konar ólöglega starfsemi þ.e.a.s. ólöglegan flutning á fólki til Bandaríkjanna. Þegar farþegar koma frá London og eru á leið til Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi þurfa þeir ekki að framvísa vegabréfum. Þess vegna er þetta talin ákjósanleg leið fyrir fólksflutninga.

„Við höfðum grun um þessa leið og þess vegna hefur verið aukin gæsla á flugvellinum á undanförnum misserum með þessum árangri,“ sagði Jóhann að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024