Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tekin með fíkniefni
Þriðjudagur 10. júní 2003 kl. 09:53

Tekin með fíkniefni

Í síðustu viku stöðvuðu lögreglumenn í eftirliti bifreið á Hringbraut í Keflavík vegna gruns um meint fíkniefnamisferli. Í bifreiðinni voru tveir karlmenn og stúlka. Voru þau handtekin og flutt til lögreglustöðvar þar sem gerð var á þeim líkamsleit. Fannst á öðrum karlmanninum meint fíkniefni í tveimur litlum pakkningum. Var það ca. 1 gramm af amfetamíni og ca. 1 gramm af hassi. Ekkert fannst á hinum tveimur og ekkert við leit í bifreiðinni. Að yfirheyrslu lokinni var fólkinu sleppt. Þetta og margt fleira í dagbók lögreglu.Mánudagurinn 2. júní 2003
Rólegt var á dagvaktinni þ.e. frá kl. 07:00 til 19:00.
Á næturvaktinni voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, sá er hraðar ók var mældur á 120 km hraða þar sem hraði er leyfilegur 90 km. Einn ökumaður var kærður fyir að nota ekki bílbelti við aksturinn. Skráningarnúmer voru tekin af fjórum bifreiðum þar sem eigendur þeirra vanræktu að greiða tryggingargjöld.

Þriðjudagurinn 3. júní 2003.
Kl. 12:20 varð árekstur með vörubifreið og fólksflutningabifreið á Gíghæð á Grindavíkurvegi. Engin meiðsl urðu á fólki en olía lak af vörubifreiðinni. Þar sem staðurinn sem þarna um ræðir er á vatnsverndarsvæði var Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og Slökkviliði Grindavíkur kunngert um óhappið og þurfti að fjarlægja nokkru magni af jarðvegi af staðnum. Meðal annars var vegkanturinn numinn á brott á um 20 metra löngum kafla og verða umferðarmerkingar uppi á staðnum þar til kanturinn hefur verið lagfærður. Ekki er ljóst hve mikið af olíu lak úr vörubifreiðinni. Vegfarendur eru beðnir um að sína varúð á staðnum.

Miðvikudagurinn 4. júní 2003.
Á næturvaktinni voru tveir ökumenn bifreiða kærðir fyrir of hraðan akstur, óku þeir báðir á 114 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. Þá var einn ökumaður bifreiðar kærður fyrir að nota ekki bílbelti við aksturinn. Eigendur 16 bifreiða voru kærðir fyrir að fara ekki með bifreiðar sínar til skoðunar á réttum tíma, þá voru skráningarnúmer tekin af einni bifreið vegna vangreiddra tryggingagjalda.
Skömmu fyrir hádegi hafði lögregla afskipti af ökumanni á Grindavíkurvegi þar sem hann mældist á 113 km hraða þar sem hámarkshraði er 70 km.
Kl. 13:29 var tilkynnt um umferðaróhapp við Grófina í Keflavík. Þar hafði bifreið verið bakkað úr bifreiðastæði, í sama mund kom önnur bifreið eftir akbrautinni og skullu bifreiðarnar saman. Annar ökumaðurinn fann til eymsla í háls og baki og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Skömmu fyrir klukkan 15:00 var ekið utan í hlið BMW bifreiðar sem var staðsett á bifreiðastæði við Sparisjóðinn í Keflavík. Tjónvaldur yfirgaf vettvang án þess að láta vita af sér.
Kl. 22:00 stöðvuðu lögr.m. í eftirliti bifreið á Hringbraut vegna gruns um meint fíkniefnamisferli. Í bifreiðinni voru tveir karlmenn og stúlka. Voru þau handtekin og flutt til lögreglustöðvar þar sem gerð var á þeim líkamsleit. Fannst á öðrum karlmanninum meint fíkniefni í tveimur litlum pakkningum. Var það ca. 1 gramm af amfetamíni og ca. 1 gramm af hassi. Ekkert fannst á hinum tveimur og ekkert við leit í bifreiðinni. Að yfirheyrslu lokinni var fólkinu sleppt.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024