Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Team Auður styrkir líknardeild HSS
Bryndís Sævarsdóttir deildarstjóri, Hjördís Baldursdóttir, Íris Sigurðardóttir, systurnar Íris Dögg, Kristín Anna og Lilja Dröfn Sæmundsdætur, Margrét Knútsdóttir og Helga Signý Hannesdóttir aðstoðardeildarstjóri við afhendingu styrkjanna á HSS.
Miðvikudagur 13. desember 2017 kl. 06:00

Team Auður styrkir líknardeild HSS

-Fimmtíu konur frá Suðurnesjum láta gott af sér leiða í minningu Auðar Jónu Árnadóttur

Styrktarsjóðurinn Team Auður styrkti líknardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja með tækjum og búnaði fyrir deildina að verðmæti 150 þúsund króna. Deildin fékk meðal annars sjónvarp, kaffikönnu og nuddtæki, með stuðningi Heimilistækja og Tölvulistans, frá styrktarsjóðnum.

„Sjóðurinn var stofnaður í minningu mömmu, Auðar Jónu Árnadóttur, sem lést þann 9. desember 2012 eftir að hafa háð hetjulega baráttu við krabbamein. Þegar maður upplifir þetta sjálfur, þá finnur maður hvað allt svona skiptir máli. Það er mikið álag á aðstandendum,“ segja dætur Auðar heitinnar, Kristín Anna, Íris Dögg og Lilja Dröfn Sæmundsdætur. Þær ásamt fimmtíu öðrum konum frá Suðurnesjum mynda Team Auður, en hópurinn hefur áður styrkt Ljósið, sem er endurhæfing og stuðningur fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, og líknardeild 11E á Landspítalanum þar sem móðir þeirra dvaldi síðasta hálfa mánuðinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Mamma var rosalega virk í Ljósinu og við sáum hvað það gerði vel. Við hefðum viljað vera í Keflavík með mömmu en líknardeildin hér er svo ný. Við athuguðum hvað vantaði á deildina hér heima og fengum æðislegan lista sendan.“

Bryndís Sævarsdóttir, deildarstjóri, segir styrkinn einnig hjálpa starfsfólkinu á deildinni gífurlega. „Starfsfólkinu finnst það oft ekki geta gert jafn mikið og það vill gera. Það skiptir svo miklu máli að geta hlúið að aðstandendum.“

Það er ósk Team Auðar að styrkurinn komi að góðum notum. „Megi rekstur líknardeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja ganga sem best um ókomin ár.“