Taprekstur fjármagnaður með sölu eigna
Ársreikningur Reykjanesbæjar 2007 var staðfestur í bæjarstjórn í gær eftir seinni umræðu. Talsverðar umræður spunnust um reikninginn og lagði minnihluti A-lista fram bókun þar sem fjármálastefna meirihlutans er harðlega gagnrýnd. Þar segir m.a. að viðvarandi rekstrartap bæjarsjóðs sé áhyggjuefni en það hafi hingað til verið fjármagnað með sölu eigna. „Ég verð að lýsa furðu minni á því að þrátt fyrir það góðæri sem ríkt hefur mörg undanfarin ár þá séum við enn að upplifa að þetta sveitarfélag sé rekið með tapi,“ var á meðal þess sem Guðbrandur Einarsson, oddviti A-lista, sagði þegar hann fylgdi bókuninni úr hlaði.
Bókun A-lista er svohljóðandi:
Er allt sem sýnist?
-Sala á eignarhlut í Hitaveitu Suðurnesja ástæða jákværðar niðurstöðu
Á heimasíðu Reykjanesbæjar helsta málgagni sjálfstæðismanna má lesa fréttatilkynningu um ársreikning Reykjanesbæjar undir fyirsögninni “Hagnaður 2,5 milljarðar króna”. Þessi frétt frá Árna Sigfússyni bæjarstjóra var sett fram áður en að árseikningarnir höfðu verið teknir til efnislegrar umfjöllunar í bæjarstjórn og án þess að hafa hlotið staðfestu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Skv. fréttinni eru eignir að aukast verulega umfram skuldir, veltufé er í hæstu hæðum, eiginfjárhlutfall hækkar á íslenskum verðbólguhraða, tapið minnkar svo að nefnd séu nokkur efnistök þessarar fréttar sjálfstæðismanna á heimasíðu Reykjanesbæjar. En er þetta svona?
Tap síðan 2002
Ársreikningar Reykjanesbæjar staðfesta að frá því að þessi meirihluti með Árna Sigfússon í fararbroddi, tók við rekstri sveitarfélagsins hefur alltaf verið tap á rekstri sveitarfélagsins. Síðasta ár var þar engin undantekning, reksturinn er eftir sem áður að skila neikvæðri niðurstöðu. Endanleg niðurstaða hefur síðan verið lagfærð með því að selja eignir sveitarfélagsins. Fyrst voru það nánast allar fasteignir sveitarfélagsins sem voru seldar til þess að fela rekstrartap, en á síðasta ári er það hluti af eignarhluta okkar í Hitaveitu Suðurnesja sem er notaður í slíkum tilgangi. Sala á stórum eignarhlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja er þvert gegn því sem sjálfstæðismenn kynntu í kosningastefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar og í andstöðu við mikinn meirihluta íbúa svæðisins. Sala á stórum hluta í Hitaveitunni myndar umtalsverðan söluhagnað sem verður til þess að unnt er að fela raunverulegt rekstrartap sveitarsjóðs. Slíkri aðferð er auðvitað hægt að beita mörg næstu ár kjósi menn að fara þá leið, þ.e. halda áfram að selja hluti af eign okkar í Hitaveitu Suðurnesja.
Verulegt tap án óreglulegra liða
Reykjanesbær færir sér til tekna 53 milljónir sem var tilfærsla ríkisins á eign sinni í nokkrum skólabyggingum til sveitarfélagsins. Þegar óreglulegu liðirnir eru teknir frá sést í raun á hvaða hátt Reykjanesbær er rekinn.
Tekjur bæjarsjóðs eru þá kr. 5.634.000.- Gjöld kr. 5.953 000. Tap fyrir fjármagnsliði er kr. 319.000. Fjármagnsliðir eru hagstæðir um kr. 158.000 vegna arðgreiðslna og vaxtatekna m.a af söluandvirði Hitaveitu Suðurnesja. Niðurstaða bæjarsjóðs er því 161 milljóna króna tap en ekki margra milljarða hagnaður eins og fyrirsögnin á heimasíðunni gefur til kynna.
Hátt veltufjárhlutfall og handbært fé frá rekstri.
Það að hafa fengið þessa 2,6 milljarða vegna sölu á hlut í Hitaveitunni gerir það auðvitað að verkum að veltufjárhlutfall er mjög hátt en sú tala sem lítið fer fyrir í fréttinni á heimasíðunni er að handbært fé frá rekstri er minna en ekki neitt. Sveitarfélagið fær því ekkert upp í niðurgreiðslur skulda eða fjármuni til frekari fjárfestinga af rekstri sínum.
En af því þarf Reykjanesbær auðvitað ekkert að hafa áhyggjur. Fasteign hf. sér bara um það.
Eignir að aukast?
Í heimasíðufrétt sjálfstæðismanna er sagt frá eignaaukningu upp á 2,7 milljarða á sama tíma og skuldir aukast aðeins um 306 milljónir. Við nánari skoðun er hér að mestu um að ræða formbreytingu og söluhagnað við sölu á eignum.
Með formbreytingu sem gerð var á Lánasjóði sveitarfélaga á síðasta ári eignuðust sveitarfélög verulega fjármuni sem hægt var að færa til eignar í reikningum sveitarfélaga.
Í hlut Reykjanesbæjar komu kr. 268,4 milljónir með þessum hætti. Til viðbótar eignaðist Reykjanesbær tæpa 91 millljóna króna langtímakröfu á Lánasjóðinn. Þá er einnig fært á eigið fé söluhagnaður af sölu okkar í Hitaveitunni 2.129,6 milljónir króna.
Þá eru “óseldar” gatnaframkvæmdir tengdar nýjum lóðum, sem ekki hafa fengist gatnagerðargjöld upp í, eignfærðar fyrir 353 milljónum króna. Hver er þá raunveruleg eignaaukning sveitarfélagsins með sínum rekstri? Hún er nánast engin. Sveitarsjóður er rekinn með tapi og því er ekki hægt að rekja eignaaukningu til rekstrar sveitarsjóðs. Bókhaldsleg eignaaukning er tilkomin af öðrum þáttum sem meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur lítið sem ekkert með að gera.
Viðvarandi rekstrartap sveitarsjóðs er áhyggjuefni
Af þessu má sjá að það er ýmislegt í umhverfinu sem hefur gert meirihluta sjálfstæðismanna kleift að “fegra” bókhaldið og fela þannig eigið getuleysi til að reka sveitarsjóð með viðunandi árangri. Sjálfstæðismenn hafa nú verið einir í meirihluta í sex ár. Hingað til hafa þeir fjármagnað taprekstur sveitasjóðs með sölu eigna með ófyrirséðum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir. Svo virðist sem þeir sjái bara eina leið til að að reka sveitarsjóð réttu megin við núllið, en það er með sölu eigna. Skv. áðurnefndri veffrétt sjálfstæðismanna telja þeir að eignarhlutur okkar í Hitaveitunni sé 17,7 milljarða virði. Hversu langan tíma ætla þeir að gefa sér í að éta þá eign upp?
Um niðurstöður ársreikningsins má lesa nánar í annarri frétt hér.