Tap Reykjanesbæjar minna en útlit var fyrir
Af þeim 700 milljónum sem Reykjanesbær átti í peningamarkaðssjóði Landsbankans eru líklega 133 milljónir tapaðar við gjaldþrot bankans. Eins og við greindum frá í morgun leit út fyrir að þessa tala gæti orðið 300 milljónir enda höfðu bæjaryfirvöld búið sig undir meiri skell.
„Miðað við fyrstu upplýsingar um tap á þessum reikningum höfðum við undirbúið okkur fyrir mun meira tap eins og við höfðum kynnt m.a. á ársfundi sambands íslenkra sveitarfélaga. Rauntalan er hins vegar umtalsvert lægri: Við lögðum inn 700 milljónir kr í Landsbankann. Ætla má að af þeirri tölu séum við að fá alls 567 milljónir kr. til baka. Það þýðir að heildartap er 133 milljónir kr. auk vaxtatekna sem við hefðum fengið ef allt hefði gengið vel,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Þeir sem áttu fé í sjóðnum fá greitt á mismikið hlutfall af eign sinni eftir því í hvaða gjaldmiðli þeir áttu féð.