Tankurinn loks kominn til Helguvíkur
Verktökum tókst loks í gær að flytja 90 tonna risastóran mjöltank frá Grindavík til Helguvíkur. Tankurinn fór frá Grindavík síðdegis á fimmtudag eftir að menn höfðu lent í miklum hremmingum með hann og meðal annars misst hann af flutningavagninum.
Ferðin frá Grindavík sóttist hægt því það var ekki fyrr en á sjöunda tímanum í gærkvöldi, um þremur sólarhringum eftir að lagt frá Grindavík að komið var til Helguvíkur. Á leiðinni þurftu menn að leysa ýmsar þrautir í gatnakerfinu, taka niður umferðarmerkingar og brjóta ýmsar umferðarreglur.
Þá þurfti að aka þvert yfir hringtorg og umfram allt koma í veg fyrir að tankurinn, sem er um 12 metra hár þar sem hann liggur á hliðinni, myndi halla mikið umfram 3-5 gráður. Þá var aldrei farið hraðar en á 4 kílómetra hraða á klukkustund á beinum köflum.
Tankurinn verður nú settur upp við fiskimjölsverksmiðjuna í Helguvík og nú undirbúa menn að flytja annan eins tank sömu leið frá Grindavík til Helguvíkur.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson