Tankur á siglingu fyrir Garðskaga
Myndarlegur olíutankur sigldi fyrir Garðskaga nú síðdegis. Það er ekki á hverjum degi sem olíutankar og það af stærstu gerð leggjast í ferðalög en tankurinn á meðfylgjandi mynd var í togi hjá olíuskipinu Lauganesi. Þar um borð fengust þær upplýsingar að tankurinn hafi síðast verið geymdur í fjöru í Hvalfirði en áður þjónað í Lauganesinu í Reykjavík. Nú sé hins vegar tekin stefnan til Vestmannaeyja. Þar er verið að endurbyggja olíubirgðastöð og tankurinn mun koma að góðum notum. Að sögn skipsstjórans á olíuflutningaskipinu Lauganesi sækist ferðin vel, þrátt fyrir að ekki sé gott í sjóinn eins og er.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson