Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Talsvert um innbrot og þjófnaði í vikunni
Föstudagur 31. janúar 2003 kl. 13:56

Talsvert um innbrot og þjófnaði í vikunni

Talsvert hefur verið um innbrot og þjófnaði á Suðurnesjum í þessari viku eins og dagbók lögreglunnar vitnar um. Hún er hér meðfylgjandi. Það sem af er árinu hefur mikið verið tilkynnt um innbrot og þjófnaði ýmiskonar, eða 36 talsins. Lögreglan vill koma þeirri ábendingu til fólks að það gangi betur frá eigum sínum, skilji t.d. ekki við bifreiðar sínar ólæstar og skilji ekki eftir verðmæti í bifreiðum sínum. Lögreglan mun verða með hert eftirlit hvað þetta varðar.Mánudagurinn 27. janúar 2003
Kl.07:45 var tilkynnt að tvær rúður að stærð 50x80 cm hafi verið brotnar á suðurhlið leikvallarhússins að Miðtúni 6, Keflavík. Ekki er vitað um tjónvald.
Kl. 08:15 var tilkynnt að ekið hafi verið utan í húsnæði ESSO við Seljabót 4, Grindavík og skemmt bárujárnsklæddan útvegg á norðurhlið hússins. Þetta mun hafa gerst um helgina. Ekki er vitað um tjónvald sem fór af staðnum án þess að tilkynna atvikið.
Kl. 08:31 var tilkynnt um innbrot í veitingastaðinn Olsen Olsen, Hafnargötu 17, Keflavík. Þar hafði verið farið inn um glugga bakatil og 70,000 kr í peningum stolið. Þetta mun hafa gerst um helgina. Ekki er vitað hver var að verki.
Kl. 10:19 var tilkynnt um innbrot í Reiðhöllina á Mánagrund. Farið var inn með því að skera gat á plastglugga á vesturhlið.
Kl. 11:16 var tilkynnt um innför í bifreið sem var staðsett utan við bifreiðaverkstæðið Skipting , Grófinni 19, Keflavík. Hljómflutningstæki var stolið úr bifreiðinni, ekki er vitað hvaða tegund. Ekki er vitað hver var að verki.
Kl. 23:00 var ökumaður fólksbifreiðar kærður fyrir að aka með 121 km hraða á Grindavíkurvegi.


Þriðjudagurinn 28. janúar 2003
Kl. 13:28 kom upp eldur í örbylgjuofni í húsi við Suðurgötuna í Keflavík. Slökkviliðið fór á staðinn. Örbylgjuofninn eyðilagðist og húsnæðið er smávægilega reykskemmt.
Kl. 17:25 var tilkynnt um stuld bifreiðarinnar OO-939 frá söluumboði Heklu við Njarðarbraut í Njarðvík. Hafði maður fengið að reynsluaka bifreiðinni fyrr um daginn en lét ekki sjá sig aftur. Kl. 20:49 handtók lögreglan í Keflavík síðan mann sem grunaður er um þennan verknað en þá rétt áður hafði lögreglu borist tilkynning um einkennilegt aksturslag ökumanns þessarar bifreiðar á Hafnargötu í Keflavík. Vökull vegfarandi hafði fylgt stolnu bifreiðinni eftir og kom boðum um ferðir hennar til lögreglu sem leiddi til handtöku mannsins.
Miðvikudagur 29. janúar 2003.
Kl. 12.50 var tilkynnt að skuttogarinn Berglín GK-300 hafi fyrr í morgun strandað við innsiglinguna í Sandgerði er vélarbilun varð um borð. Fór björgunarbátur Sigurvonar í Sandgerði Hannes Þ. Hafstein á vettvang og tókst fljótlega að ná togaranum af strandstað. Kom togarinn síðan til hafnar í Njarðvík kl. 13.00 en ekki er ljóst með skemmdir á honum.
Kl. 14.40 var tilkynnt um þjófnað í Byrginu við Sandgerðisveg. Hafði verið stolið tveimur gíturum úr samkomusal. Er annar þeirra rafmagnsgítar svartur að lit og hinn venjulegur bassagítar rauðlitaður. Mun þjófnaðurinn hafa skeð aðfaranótt s.l. þriðjudags og ekki sjáanlegt að brotist hafi verið inn.
Kl. 15.05 var tilkynnt um þjófnað úr ólæstum bílskúr við Selsvelli í Grindavík. Hafði verið stolið þaðan rafmagnsgítar. Einnig hafði verið farið í ólæsta bifreið sem geymd var í skúrnum og úr henni stolið Piooner hljómflutningstækjum.
Kl. 16.16. var tilkynnt um árekstur og afstungu á Sunnubraut við Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Þarna hafði verið ekið á framenda bifreiðar sem er græn Toyota Corolla en hún var kyrrstæð og mannlaus. Ekki er kunnugt um tjónvald.
Í dag hafa fimm ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi. Sá sem hraðast ók var á 118 km. hraða.
Þá hafa umráðamenn fjögurra bifreiða verið kærðir fyrir að færa bifreiðar sínar ekki til skoðunar á réttum tíma.

Miðvikudagurinn 29. janúar 2003 (næturvakt)
Lögregla hafði afskipti af fimm ökumönnum vegna umferðalagabrota. Þrír voru með þokuljós tendruð þrátt fyrir góðar aðstæður, einn var með litaðar plastfilmur í fremri hliðarrúðum og einn stöðvaður vegna hraðaksturs. Var hann mældur á 79 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km.


Fimmtudagurinn 30. janúar 2003.
Fjórir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, þrír á Reykjanesbraut og einn á Garðvegi.
Kl. 20:44 var tilkynnt um hraðan árekstur á gatnamótum Hringbrautar og Vesturbrautar í Keflavík. Ökumaður og farþegi í annarri bifreiðinni fóru á Heilbirgðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Meiðsl þeirra voru minniháttar. Báðar bifreiðarnar voru illa farnar eftir áreksturinn og voru þær fjarlægðar af vettvangi með dráttarbifreið.
Einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur.

Það sem af er árinu hefur mikið verið tilkynnt um innbrot og þjófnaði ýmiskonar, eða 36 talsins. Lögreglan vill koma þeirri ábendingu til fólks að það gangi betur frá eigum sínum, skilji t.d. ekki við bifreiðar sínar ólæstar og skilji ekki eftir verðmæti í bifreiðum sínum. Lögreglan mun verða með hert eftirlit hvað þetta varðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024