Talsvert tjón í vatnsflóði á Fitjum
— Sjáið myndskeið og myndir frá vettvangi með fréttinni
Lagnir gáfu sig í verslunarmiðstöðinni á Fitjum í Njarðvík þegar vatni var hleypt á stofnæð um hádegisbil. Mikið vatn flæddi um gólf í verslunarmiðstöðinni. Það sprautaðist einnig af krafti út úr húsinu eins og sjá má á myndum sem fylgja þessari frétt.
Unnið var að því í alla nótt að færa stofnæð fyrir kalt vatn á Fitjum og hafa Njarðvík, Keflavík og Sandgerði verið án vatns á meðan. Þegar vatninu var hleypt á aftur og þrýstingur kom á kerfið hefur eitthvað gefið sig í lagnakerfi verslunarmiðstöðvarinnar.
Tengirými þar sem slökkvilið tengir sig við slökkvikerfi hússins var orðið hálf fullt af vatni og þar sprautaðist vatnið af miklu afli út úr húsinu auk þess að flæða um gólf.
Þegar ljósmyndari Víkurfrétta var á staðnum áðan var unnið að því að skrúfa fyrir vatnið svo hægt væri að laga bilunina.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja og lögregla voru kölluð á staðinn. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ljóst að tjón er nokkuð enda fór mikið vatn um gólf hússins.
Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá upptöku af útsendingu Víkurfrétta á fésbókarsíðu okkar nú áðan frá vettvangi flóðsins.
Opnað var fyrir brunahana til að létta þrýstingu á vatnskerfinu.