Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Talsvert tjón í bruna í malbikunarstöð í Helguvík
Fimmtudagur 24. nóvember 2005 kl. 14:35

Talsvert tjón í bruna í malbikunarstöð í Helguvík

Eldur kom upp í Malbikunarstöð Suðurnesja í Helguvík fyrir hádegi. Eldur læsti sig í færiband og komst þaðan í ryksugu. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út og réð það niðurlögum eldsins.

Við framleiðslu á malbiki eru notuð eldfim efni og mikill hiti. Þannig er eðlilegt hitastig þar sem eldurinn kom upp um 200 gráður, þannig að lítið má útaf bregða svo ekki brjótist út eldur.

Að sögn Geirs Sædal, framkvæmdastjóra Malbikunarstöðvar Suðurnesja, er tjónið umtalsvert og líklegt að stöðin verði lokuð fram á vorið. Í stöðinni átti eftir að framleiða um 1000 tonn af malbiki til áramóta til að ljúka við umsamin verkefni. Óvíst er á þessari stundu hvernig þau mál verða leyst.

Ástæður þess að eldur kom upp er að hráefni til malbiksframleiðslu fraus í sílóum utandyra og þannig komust jarðefni ekki inn í vinnsluferlið. Þannig er talið að neisti frá færibandi hafi kveikt eld, sem síðan barst í síur í hreinsikerfi.

Mynd: Frá slökkvistarfi fyrir hádegið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024