Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Talsverður eldur í kjallaraíbúð við Kirkjuveg
Föstudagur 22. desember 2006 kl. 07:51

Talsverður eldur í kjallaraíbúð við Kirkjuveg

Talsverður eldur kom upp í kjallaraíbúð við Kirkjuveg í Keflavík um kl. 07 í morgun. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað til og fóru fjórir slökkviliðsmenn strax til að berjast við eldinn. Að sögn Jóns Guðlaugssonar, varaslökkviliðsstjóra BS, var talsverður eldur í stofu íbúðarinnar þegar að var komið. Að hans sögn voru íbúar hússins komnir út þegar slökkvilið kom á staðinn og varð ekki meint af brunanum.

Eldurinn var slökktur á skömmum tíma. Hann var meðal annars kominn í milliloft en trégólf er á milli hæða í húsinu og það einangrað með spæni. Nú er unnið að því að reykræsta húsið. Enginn er búsettur á efri hæðinni en þar var unnið að miklum endurbótum. Slökkviliðsmenn fóru inn á hæðina til að fullvissa sig um að ekki hafi komist glóð þangað upp.

Nokkur erill hefur verið hjá Brunavörnum Suðurnesja síðustu daga og þá aðallega við sjúkraflutninga, eins og greint hefur verið frá hér á vefnum. Er orðin þörf á að fjölga sjúkrabílum á svæðinu, þar sem margoft eru að koma upp tilvik þar sem allir sjúkrabílar eru í notkunn á sama tíma.

 

Myndir: Frá vettvangi slökkvistarfs í morgunsárið.

 

Ljósmyndir: Ellert Grétarsson - [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024