Taka upp Ástríði í MSS
Tökur á íslensku sjónvarpsþáttaröðinni Ástríður hafa verið í fullum gangi í Reykjanesbæ í dag. Fyrsta þáttaröðin af Ástríði sló í gegn árið 2010 og nú er von á framhaldi.
Allar helstu stjörnur þáttarins voru saman komnar í Reykjanesbæ í dag en tökur fóru fram í Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í Krossmóum. Með aðalhlutverk í þáttunum fara þau Ilmur Kristjánsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir, Kjartan Guðjónsson, Rúnar Freyr Gíslason og Hilmir Snær Guðnason. Silja Úlfarsdóttir leikstýrir þáttunum.
Þegar ljósmyndari Víkurfrétta leit við í dag voru tökur í fullum gangi. Leikarinn Björn Hlynur Haraldsson var að gera sig kláran fyrir tökur þegar nokkrum myndum var smellt. Spennandi verður að sjá niðurstöðuna en þáttaröðin verður sýnd á Stöð 2 síðar á þessu ári.
Það er mikið umfang í tökum á sjónvarpsþætti eins og sjá má.