Taka sæti í framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ
Árni Þór Sigurðsson, Guðný Sverrisdóttir og Gunnar Einarsson munu taka sæti í sérstakri framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ. Árni Þór verður formaður nefndarinnar. Lög um framkvæmdanefndina voru samþykkt á Alþingi fyrr í vikunni en hún tekur formlega til starfa 1. júní nk. Undirbúningur er þó hafinn og mun nefndin m.a. hitta bæjarstjórn Grindavíkurbæjar í næstu viku. Nefndin mun einnig eiga undirbúningsfundi með stofnunum á vegum ríkisins sem hafa unnið að viðbragði vegna jarðhræringa við Grindavík. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.
„Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ er mikilvægt skref til þess að skerpa á ábyrgð og hlutverki stjórnvalda um málefni Grindavíkur. Þetta skref er til góðs fyrir Grindvíkinga. En ekki síður fyrir samfélagið allt, sem stendur með Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum,“ segir Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra.
Um nefndarfólk
Árni Þór Sigurðsson sat á Alþingi um árabil en var áður borgarfulltrúi í Reykjavík um þrettán ára skeið og sat um tíma í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Árni Þór hefur starfað í utanríkisþjónustunni frá árinu 2015 og verið sendiherra Íslands í Finnlandi, Rússlandi og nú síðast í Danmörku.
Guðný Sverrisdóttir var sveitarstjóri Grýtubakkahrepps í tæp 27 ár, allt til ársins 2014. Guðný hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstöfum. Hún var lengi formaður ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og gegndi þeim störfum fram til ársins 2023.
Gunnar Einarsson var bæjarstjóri í Garðabæ um 17 ára skeið og þar áður forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs bæjarins. Gunnar hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um tólf ára skeið.
Hlutverk nefndarinnar
Framkvæmdanefndin mun fara með stjórn, skipulag og framkvæmd tiltekinna verkefna sem henni er falin með lögum, samhæfingu aðgerða, tryggja skilvirka samvinnu við Grindavíkurbæ, önnur stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi aðila og hafa heildaryfirsýn yfir málefni Grindavíkurbæjar. Framkvæmdanefndin er fjölskipað og sjálfstætt stjórnvald sem hefur með höndum verkefni sem snúa að úrlausnarefnum sem tengjast jarðhræringunum við Grindavík.
Helstu verkefni nefndarinnar munu snúa að samfélagsþjónustu með því að starfrækja þjónustuteymi á sviði velferðar- og skólaþjónustu og þá mun nefndin hafa yfirumsjón með framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík.
Verkefnið hefur verið undirbúið í góðu samstarfi við bæjarstjórn Grindavíkur sem óskaði eftir samstarfi um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna við óvenjulegar aðstæður vegna jarðhræringa í Grindavík.
- Lög um framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavík
- Alþingi samþykkir lög um sérstaka framkvæmdanefnd (frétt 14. maí 2024)
- Frumvarp um sérstaka framkvæmdanefnd kynnt (frétt 3. maí 2024)