Tafir á flugi á Keflavíkurflugvelli í morgun
Brottför allra flugvéla sem fara áttu frá keflavíkurflugvelli tafðist um allt að tvær klukkustundir í morgun vegna bilunar sem upp kom í sjálfvirku flugupplýsingakerfi í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík sem miðlar gögnum til flugumferðarstjóra.
Afar sjaldgæft er að slíkar aðstæður skapist en það hefur gerst nokkrum sinnum í flugstjórnarmiðstöðvum í nágrannalöndunum. Er þá umsvifalaust gripið til verklags við flugumferðarstjórn sem er hægara í framkvæmd og áhersla lögð á að stjórna flugvélum sem þegar eru á lofti en afgreiðslu flugvéla til flugtaks og á leið inn í flugstjórnarsvæðið frestað þar til vandinn er leystur.
Engin hætta skapast við slíkar aðstæður en afgreiðsla hægist eins og áður er nefnt. Bilunin hafði ekki áhrif á innanlandsflug á Reykjavíkurflugvelli í morgun. Ástæða bilunarinnar verður rannsökuð gaumgæfilega og viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hún endurtaki sig ekki.
Alls tafðist flugtak 7 flugvéla og lending tveggja flugvéla sem eru á leið til Keflavíkur af þessum sökum í morgun.