Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Tæpur helmingur sveitarfélaga með 0,5% fasteignaskatt
Þriðjudagur 11. nóvember 2014 kl. 09:00

Tæpur helmingur sveitarfélaga með 0,5% fasteignaskatt

- eða hærri, segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri RNB.

„Af 72 sveitarfélögum á landinu eru 33 með 0,5% fasteignaskatt eða hærri. Með nýlegri ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar um að hækka A-skatt úr 0,3% í 0,5% mun Reykjanesbær bætast í þennan hóp frá og með 1. janúar 2015 og þá verða sveitarfélögin 34 talsins,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í nýrri grein á vefsíðu Reykjanesbæjar.

Í greininni útskýrir Kjartan Már að fasteignaskattur sé annar stærsti tekjustofn sveitarfélaganna og lagður árlega á flestar fasteignir í landinu. „A-skattur er lagður á íbúðarhúsnæði og getur verið allt að 0,5% af fasteignamati. B-skattur er lagður á ýmsar opinberar byggingar og er 1,32% af fasteignamati. C-skattur er lagður á atvinnuhúsnæði og annað húsnæði sem ekki fellur undir A- eða B-skatt og getur verið allt að 1,32% af fasteignamati. Sveitarstjórnum er heimilt að hækka álagningu A- og C-skatta um allt að 25%. Hámarksálagning A-skatts verður þá 0,625% og C-skatts 1,65%.“

B- og C-skattar séu þegar fullnýttir í Reykjanesbæ. „Þetta segir samt ekki alla söguna því eins og fram kemur hér að framan er skatturinn 0,5% af fasteignamati og það er misjafnt eftir sveitarfélögum, bæjarhlutum, hverfum og jafnvel götum. Fasteignamat er endurreiknað árlega og á að endurspegla markaðsverð húsnæðis á hverjum stað. Það er gert þannig að allir kaupsamningar sem gerðir eru í febrúar ár hvert eru notaðir til þess að meta og reikna út fasteignmat sem gildir næsta heila ár á eftir,“ segir Kjartan. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fasteignamatið fyrir fasteignir í Reykjanesbæ á næsta ári, 2015, segir Kjartan Már byggja á útreikningum úr öllum kaupsamningum sem gerðir voru í febrúar 2014. Þannig geti 0,5% fasteignaskattur á 100m2 íbúð í Reykjanesbæ verið lægri í krónutölu en 0,5% fasteignaskattur á sams konar íbúð í einhverju öðru sveitarfélagi á Íslandi þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis er hærra.

Og Kjartan bætir við að lokum: „En það eru ýmis fleiri gjöld sem þarf að greiða af fasteignum s.s. lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjald. Þessi gjöld eru einnig mismunandi eftir sveitarfélögum. Saman eru þessi gjöld einu nafni nefnd fasteignagjöld og með hækkun fasteignaskatts úr 0,3% í 0,5% munu fasteignagjöld í Reykjanesbæ af 150m2 sérbýli verða lítillega hærri en á Akureyri en mun lægri en í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi.“