Tæpum tveimur milljónum úthlutað úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar
Styrkjum var úthlutað úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar sl. þriðjudag við athöfn sem fór fram á Þekkingarsetri Suðurnesja. Þar var styrkhöfum og gestum boðin leiðsögn um safnið og fræðslu um þá mikilvægu og metnaðarfullu starfsemi sem er í húsinu. Hanna María Kristjánsdóttir forstöðumaður setursins sagði gestum frá starfseminni.
Menningarsjóður Suðurnesjabæjar byggir stoðir sínar á gjöf frá Litla leikfélaginu sem starfaði í Garði en skrifað var undir samkomulag um gjöfina í september 2020. Reglur sjóðsins má finna á heimasíðu Suðurnesjabæjar en að jafnaði er úthlutað úr sjóðnum einu sinni á ári.
Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir formaður ferða-, safna- og menningarráðs stýrði dagskrá og afhenti styrki fyrir hönd ráðsins en að þessu sinni var úthlutað styrkjum fyrir 1.900.000 kr. til sjö aðila.
Almenningsbókasafn Suðurnesjabæjar fékk úthlutað kr. 150.000 til að mæta kostnaði við fræðsluerindi sem safnið stendur fyrir.
Elín Yngvadóttir fékk úthlutað kr. 300.000 vegna námskeiðahalds í olíumálun sem mun standa íbúum Suðurnesjabæjar til boða.
Ferskir vindar fengu úthlutað kr. 250.000 vegna útgáfu á bæklingi vegna hátíðarinnar.
Hollvinir Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst fengu úthlutað kr. 300.000 fyrir verkefni sem unnið er að og tengjast starfseminni.
Knattspyrnufélagið Víðir fékk úthlutað kr. 400.000 fyrir verkefni sem snýr að því að koma sögu félagsins á stafrænt form.
Útskálakirkja fékk úthlutað kr. 300.000 til að standa straum að tónleikahaldi.
Þekkingarsetur Suðurnesja fékk úthlutað kr. 200.000 vegna kynningar- og markaðsherferðar fyrir verkefnið Fróðleiksfúsi.
Í reglum sjóðsins segir m.a. að hlutverk Menningarsjóðs Suðurnesjabæjar sé að styrkja menningarstarfsemi í Suðurnesjabæ með fjárframlögum og efla þannig einstaklinga og félagsamtök til virkrar þátttöku. Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái framlag úr fjárhagsáætlun á hverju ári en að auki getur sjóðurinn tekið við gjöfum sem ætlaðar eru til að efla menningarlíf í Suðurnesjabæ og renna slíkar gjafir beint í sjóðinn.
Íbúar og gestir Suðurnesjabæjar hvattir til þess að taka þátt í þeim verkefnum sem styrkþegar standa að.